Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mestar líkur á fjögurra flokka stjórn

Mynd: Skjáskot / RÚV
Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að miðað við niðurstöður nýjasta Þjóðarpúls Gallup sé líklegast að mynduð verði fjögurra flokka ríkisstjórn eftir kosningar. Engin tveggja flokka stjórn er í spilunum ef könnunin gengur eftir og þriggja flokka stjórn verður ekki mynduð nema Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-græn snúi bökum saman.

Samkvæmt könnuninni, sem birt var í dag, fengju Vinstri-græn og Sjálfstæðisflokkurinn fimmtán þingsæti hvor flokkur og Samfylkingin níu. Píratar fengju sjö þingsæti, Miðflokkurinn sex og Framsóknarflokkurinn fimm. Viðreisn og Flokkur fólksins fengju sitthvor þrjú þingsætin en Björt framtíð félli af þingi.

Ólafur skipti könnuninni upp í fjóra hluta í kvöldfréttum í sjónvarpi. Fyrst bæri að nefna stóru flokkana tvo, Vinstri-græn og Sjálfstæðisflokk sem fengju áberandi mest fylgi. Næst kæmu fjórir flokkar; Samfylkingin, Píratar, Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem virtust nokkuð öruggir um að koma fólki á þing. Þriðji hópurinn sem Ólafur nefndi var skipaður Viðreisn og Flokki fólksins sem mælast skammt ofan fimm prósenta markanna sem tryggja uppbótarsæti óháð því hvort framboð nái kjördæmakjörnum þingmönnum. Að lokum nefndi hann Bjarta framtíð sem mælist langt frá því að komast á þing.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Það væri nýtt í íslenskum stjórnmálum ef könnunin gengi eftir að átta flokkar næðu á þing, sagði Ólafur. Slíkt hefur aldrei gerst áður.

Ólafur sagði það liggja í þessum tölum að engin tveggja flokka stjórn verður möguleg ef könnunin gengur eftir og þriggja flokka stjórn aðeins ef Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-græn væru saman í stjórn með þriðja flokki. Hann sagði að miðað við þetta væri líklegast að mynduð yrði fjögurra flokka stjórn.

Nýjar kannanir eru birtar ótt og títt þessa dagana. Ólafur hefur borið saman síðustu fjórar skoðanakannanir. Hann sagði að almennt væri fylgi flokkanna svipað milli kannana. Á því væru þó tvær undantekningar. Önnur væri að meiri munur mældist á fylgi Vinstri-grænna og Samfylkingarinnar en annarra flokka milli skoðanakannana.  Hin er misjöfn staða Viðreisnar og Flokks fólksins eftir könnunum en þeir næðu hvor um sig inn á þing í þremur af fjórum könnunum

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV