Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mesta kaupæði í Kauphöllinni í rúman áratug

05.11.2018 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pixabay.com
Kaup Icelandair á Wow Air hrundu af stað mestu viðskiptahrinu með hlutabréf í fyrirtæki á íslenskum markaði í meira en áratug. Þegar rykið settist við lokun markaðar klukkan fjögur var búið að kaupa og selja hlutabréf í Icelandair fyrir rúmar 948 milljónir króna í 277 viðskiptum. Það eru tíðustu viðskipti með hlutabréf í einu félagi í Kauphöllinni á ríflega áratug, ef undan eru skildir fyrstu skráningardagar þriggja félaga sem komu ný inn á markað.

Verð hlutabréfa í Icelandair hækkaði um 39,2 prósent í viðskiptum dagsins. Mest var hækkunin 52 prósent nokkrum mínútum eftir að opnað var fyrir viðskipti með hlutabréf í Wow Air. Hún gekk svo að nokkru leyti til baka. Lokað hafði verið fyrir viðskipti með hlutabréf í Icelandair rétt áður en tilkynnt var um kaup fyrirtækisins á Wow Air. 

Dagurinn í dag var sá líflegasti í kauphöllinni það sem af er ári ef miðað er við fjölda viðskipta. Alls voru gerð 605 viðskipti með hlutabréf í dag. OMXI8 úrvalsvísitalan hækkaði um 4,7 prósent. Veltan var líka mikil á skuldabréfamarkaði. Hún er þó rekin til fregna frá Seðlabankanum á föstudag um að slaka á bindiskyldu erlendrar fjárfestingar hérlendis.