Mesta atvinnuleysi í sögu mælinga næstu 2 mánuði

26.03.2020 - 17:35
Mynd: RÚV / rÚV
Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi næstu tvo mánuði verði það mesta sem mælst hefur á Íslandi. Það verði 10,8% í apríl og um 10% í maí en fari svo lækkandi. Atvinnuleysi yfir árið verði um 7,4% og á næsta ári geti það verið 6,4%. Áætlað er að allt að 20 þúsund umsóknir berist um hlutabætur.

Fór yfir 9% í hruninu

Það má segja að atvinnuleysi hafi almennt ekki verið mikið á Íslandi. Á tímabilinu 1991 til 2007 var það meðaltali 3,3%. Það rauk upp í bankahruninu. Árlegt  atvinnuleysi var um 8 af hundraði 2009 og 2010. Mest fór það í 9,3% í febrúar 2010 sem var þá mesta atvinnuleysi sem hafði mælst. Þá voru að meðaltali um 15 þúsund manns án atvinnu. Atvinnuleysið á síðasta ári var um 3% en fór að aukast í lok ársins og í byrjun þessa. Í febrúar var það komið í 5% að meðaltali í landinu. Staðan var mismunandi eftir landshlutum en langmest var það á Suðurnesjum, 9,1%. Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara er eða var talsvert eða um 11%.

Atvinnuleysið rýkur upp

Staðan nú vegna hremminga fyrirtækja í tengslum við útbreiðslu COVID-19 er sú að aðgerðir og stuðningur stjórnvalda miðast við að fólk geti farið í hlutastarf og fengið bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði á móti. Launafólk hefur ekki valið sér að minnka við sig. Segja má að sá sem fer í 25% starfshlutfall sé atvinnulaus um sem nemur 75%. Ef 1000 manns fara í 25% starfshlutfall svara það til þess að 750 manns séu algerlega án atvinnu. Í gær þegar opnað var fyrir umsóknir um hlutabætur var stór hluti umsókna vegna 25% starfshlutalls. Búist er við að það breytist á næstu dögum og að meðalstarfshlutfallið hækki. Í útreikningum eða spá Vinnumálastofnunar er miðað við að um 19 þúsund sæki um hlutabætur og að meðalstarfshlutfall verði 45 til 50 prósent. Karl Sigurðsson sérfræðingur á Vinnumálastofnun segir að atvinnuleysi muni rjúka upp í næsta mánuði.

„Við gerum ráð fyrir að atvinnuleysi rjúki upp í 10 til 11% í apríl og verði áþekkt í maí. En lækki svo í 6 til 7% yfir sumarmánuðina,“ segir Karl.

Mynd með færslu
 Mynd: Vinnumálastofnun

Áfram atvinnuleysi 2021

Vinnumálastofnun spáir því að meðalatvinnuleysið á árinu verði 7,4%. Það gæti verið skot í myrkri því óvissan er mikil. Háspá gerir ráð fyrir að meðaltalið geti farið yfir 8%. Það ríkir líka óvissa um stöðuna á næsta ári. Stofnunin spáir 6,4% atvinnuleysi þá. Óvissumörk eru há því spáin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi á næsta ári geti verið frá 5% upp í 8%. En stærsti skellurinn verður næstu tvo mánuði. Og hann er mikill í sögulegu samhengi.

„Ef að þetta gengur eftir og atvinnuleysið verður svona mikið þá er þetta hæsta tala í einstökum mánuði sem við höfum séð síðan samræmdar mælingar hófust 1980.“

Umsóknir allt að 20 þúsund

Þegar hafa um 10 þúsund manns sóttu um hlutabætur. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að fjöldi umsókna geti orði allt að 20 þúsund.

„Og að hlutfallið verði nálægt 45% starfshlutfalli og þá 55% bótum á móti. Okkur sýnist að þetta geti gengið eftir. Það getur að sjálfsögðu munað einhverjum þúsundum til eða frá en það er alla vega ljóst að þetta fer vel yfir 10 þúsund og kannski nær 20 þúsund þegar upp er staðið,“ segir Karl.

Næstu tveir mánuðir verða verstir að mati Vinnumálastofnunar. Svo fari að rofa til.

„Við gerum ráð fyrir að í maí fari ýmislegt að gæðast. Hægt kannski í fyrstu og ferðaþjónusta trúlega ekki fyrr en líður á sumarið. Byggingaframkvæmdir geti farið í gang fyrr og ýmsar innlendar þjónustugreinar fari að taka við sér. Þannig að fyrirtæki sem eru að setja fólk í minnkað starfshlutfall geta kallað það til baka aftur eða hækkað starfshlutfalli. Við gerum ráð fyrir því að í júní fari atvinnuleysið að minnka og vonandi töluvert mikið þegar líður á sumarið,“ segir Karl.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi