Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mesta árlega fjölgun íbúða frá árinu 2008

12.03.2019 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Íbúðum á landinu öllu fjölgaði um 2.400 í fyrra, sem er mesta fjölgun á einu ári síðan 2008. Til samanburðar fjölgaði íbúðum um 1.800 árið 2017. Í nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að í fyrra hafi skráningum nýrra íbúða til sölu fjölgað um 154 prósent frá árinu 2017. 362 nýbyggingar á landinu öllu komu inn til sölu í janúar. Ekki hafa fleiri íbúðir verið settar á sölu í einum mánuði í sex ár.

Una Jónsdóttir, hagfræðingur og deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði, segir aukið framboð gefa kaupendum meira svigrúm. „Við höfum verið að glíma við ákveðinn framboðsskort. Núna virðist framboð að einhverju leyti vera að taka við sér. Við sjáum líka mjög mikið af nýjum íbúðum til sölu og þetta eru allt bara mjög jákvæð skref fyrir íslenskan íbúðamarkað að það sé þetta aukna framboð. Það gerir það að verkum að kaupendur hafa úr meiru að velja og svo framvegis. Við sjáum líka að það eru sögulega lítið af fasteignum sem seljast yfir ásettu verði sem bendir til þess að það sé aðeins rólegri gangur á markaði akkúrat núna,“ segir hún.

Athygli vekur að hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur ekki mælst lægra síðan í byrjun árs 2013. Fjögur prósent íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í janúar voru yfir ásettu verði. Fjórtán prósent íbúða seldust á ásettu verði og 83 prósent undir ásettu verði. „Ég held að þetta sé bara eðlileg afleiðing þess að það sé meira framboð. Það eru færri að berjast um hverja fasteign og þar af leiðandi hægt að stilla framboðunum meira í hóf,“ segir Una.

Þá er sölutími fasteigna utan höfuðborgarsvæðsins að styttast og eru íbúðir sem seljast þar komnar með áþekkan sölutíma og tíðkast á höfuðborgarsvæðinu. „Ef við horfum lengur aftur í tímann, til dæmis á stöðuna fyrir þremur árum, þá höfðu um það bil helmingur allra fasteigna sem seldust utan höfuðborgarsvæðisins verið til sölu í sex mánuði eða meira en núna er hlutfall þeirra íbúða sem fá svo langa sölumeðferð komið niður í fimmtán til tuttugu prósent, sem er svipað því sem við sjáum hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Una. Segir hún erfitt að segja hvað valdi. „Það er erfitt að benda á eina skýringu þar en við sjáum það bara að fólk virðist vera að leita úr fyrir höfuðborgarsvæðið í leit að íbúðum og þetta er kannski bara afleiðing af því. Þá fer sölutíminn að styttast.“

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV