Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mest atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi

17.01.2016 - 18:43
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Hvergi á meðal ríkja OECD er atvinnuþátttaka innflytjenda meiri en á Íslandi. Rúmlega 84 prósent innflytjenda hér á landi eru virk á vinnumarkaði.

Efnahags- og framfarastofnunin OECD mælir reglulega atvinnuleysi og atvinnuþátttöku á meðal aðildarríkja sinna. Í nýjustu skýrslu stofnunarinnar sem kom út á föstudaginn, kemur fram að atvinnuleysi á Íslandi sé 4,1%. Það er fimmta minnsta atvinnuleysið á meðal ríkja OECD. Atvinnuleysið er minnst í Japan, rúmlega 3%. Mest er það í Suður-Afríku, rúmlega 25%, en einnig mjög mikið í Grikklandi og á Spáni.

Í skýrslunni er sérstaklega horft til atvinnuþátttöku innflytjenda í aðildarríkjunum. Þar kemur í ljós að atvinnuþátttaka innflytjenda er hvergi meiri en á Íslandi, rúmlega 84%. Meðaltal innan OECD er tuttugu prósentustigum lægra, eða tæplega 65%.

„Mér finnst þetta mjög gott og þetta er vísbending um að við séum að gera eitthvað rétt. Mér finnst líka ánægjulegt hvað það er lítill munur á milli atvinnuþátttöku innfæddra Íslendinga og aðfluttra. Þannig að þetta eru bara mjög góðar fréttir. Og gott að fá svart á hvítu einhverjar tölur og rannsóknir á bak við það sem verið er að tala um,“ segir Tatjana Latinovic, varaformaður Innflytjendaráðs.

Hvað heldurðu að skýri þetta?

„Ég held að í fyrsta lagi sé það að íslenskt samfélag þarf á fólki að halda. Mörg fyrirtæki þurfa á fólki að halda sem býr yfir öðruvísi menntun eða öðruvísi reynslu og það þykir jafnvel eftirsóknarvert hjá mörgum fyrirtækjum sem eru kannski að hasla sér völl á alþjóðavettvangi að koma með eitthvað annað og nýtt til landsins.“

Ísland er víðar á toppnum í skýrslunni. Þegar litið er til atvinnuþáttöku eldra fólks er Ísland í efsta sæti. 86,5% fólks á aldrinum 55 til 64 ára er virkt á vinnumarkaði hér á landi. Meðaltalið innan OECD er tæplega 59%.

Þá er atvinnuþátttaka kvenna sú þriðja mesta á Íslandi, rúm 83%. Meðaltalið er rúm 67%.