Merkingarlaus vottun?

Mynd með færslu
 Mynd:

Merkingarlaus vottun?

16.10.2014 - 14:26
Hver er munurinn á lífrænni framleiðslu og vistvænni? Hefur vistvæn vottun einhverja merkingu? Um þetta fjallar Stefán Gíslason í pistli sínum í dag.

Vistvænn landbúnaður

Á síðustu vikum og mánuðum hefur svokölluð „vistvæn vottun“ íslenskra landbúnaðarafurða verið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum. Þessi umrædda vottun á sér stoð í reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, en svo virðist sem menn hafi áttað sig á því í vor sem leið að það hafði gleymst að fylgja reglugerðinni eftir. Það lítur með öðrum orðum út fyrir að hvaða framleiðandi sem er hafi getað merkt landbúnaðarafurðirnar sínar sem vistvænar án nokkurs utanaðkomandi eftirlits. Reyndar stendur í reglugerðinni að búnaðarráðunautar og dýralæknar sjái um eftirlitið og að landbúnaðarráðuneytið haldi svo skrá yfir alla viðurkennda framleiðendur í samræmi við upplýsingar sem það fær sendar frá búnaðarsamböndunum. En nú virðist ljóst að ekkert af þessu virkar eins og ætlast var til.

 Núverandi landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að taka á þessum málum og í júlí skipaði hann starfshóp til að endurskoða reglugerðina, enda væri reglugerðin merkingarlaus á meðan henni væri ekki fylgt eftir, eins og hann orðaði það sjálfur í viðtali. Þangað til þeirri endurskoðun er lokið heldur reglugerðin væntanlega áfram að vera merkingarlaus og hver sem er getur merkt vörurnar sínar eins og honum sýnist, jafnvel þó að ráðuneytið hafi hvatt framleiðendur „til að óska sem fyrst eftir úttekt til búnaðarsambands á sínu starfssvæði“, eins og það er orðað í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá 10. júlí.

 Í raun er þetta mál tvíþætt. Það snýst annars vegar um eftirlitið með framkvæmd reglugerðarinnar, en það virðist sem sagt vera alveg ónýtt eins og fram kom hérna áðan. Hins vegar snýst það um innihald reglugerðarinnar og þýðingu hennar, ef henni væri fylgt eftir. Lítum nú nánar á þann hluta.

 Oft er talað um vistvænan landbúnað sem einhvers konar millistig á milli hefðbundins landbúnaðar og lífræns landbúnaðar. Eftir að hafa skoðað málið frá ýmsum hliðum get ég ekki annað séð en þar sé einhver meiri háttar misskilningur á ferðinni. Þegar rýnt er í reglugerðina eins og hún lítur út, hvort sem einhver tekur mark á henni eða ekki, þá virðist hún einfaldlega fela í sér lýsingu á góðum búskaparháttum, þ.e.a.s. ósköp venjulegum hefðbundnum landbúnaði. Þetta líta með öðrum orðum út fyrir að vera reglur sem ætti að uppfylla í öllum almennilegum búskap. Það lægi þess vegna kannski beinna við að merkja þær landbúnaðarvörur sérstaklega sem uppfylla reglurnar ekki. Það væri þá svona eins konar varúðarmerking, þar sem stæði t.d.: „Þessi vara er framleidd bara einhvern veginn og þú borðar hana á eigin ábyrgð væni minn“.

 Ef við sleppum nú öllu gamni og skoðum betur þá hugmynd eða staðhæfingu, sem ég var reyndar að enda við að fullyrða að væri röng, að vistvænn landbúnaður sé einhvers konar millistig á milli hefðbundins landbúnaðar og lífræns landbúnaðar, þá má til dæmis grípa niður í reglugerðina þar sem fjallað er um notkun varnarefna í útiræktun á grænmeti og kartöflum. Þar stendur m.a. að plöntulyf megi „aðeins nota í neyðartilvikum eða samkvæmt notkunaráætlun“ og að í notkunaráætluninni skuli „m.a. koma fram hvaða lyf muni væntanlega verða notuð“. Þá sé einungis „leyfilegt að nota viðurkennd plöntu- og illgresislyf og í fullu samræmi við notkunarleiðbeiningar“. Nú er eðlilegt að spurt sé: Dettur nokkrum grænmetis- eða kartöfluframleiðanda í hug að nota óleyfileg plöntu- og illgresislyf og fylgja ekki notkunarleiðbeiningunum? Það finnst mér afar ólíklegt, svo ekki sé meira sagt. Þarna er með öðrum orðum einfaldlega verið að lýsa hefðbundnum landbúnaði þar sem menn vita hvað þeir eru að gera. Þessi regla tengist umhverfismálum svo sem ekki neitt, heldur snýst þetta einfaldlega um gæðastjórnun sem hlýtur að vera sjálfsögð í allri matvælaframleiðslu. Í lífrænni framleiðslu er notkun varnarefna hins vegar einfaldlega bönnuð. Þar er stór munur á.

 Meginniðurstaðan er þessi: Það er ekkert mark takandi á þessari vistvænu vottun eins og staðan er í dag. Neytendur geta auðvitað haldið áfram að kaupa vöru sem merkt er sem vistvæn landbúnaðarafurð ef þeim sýnist svo, enda er hún örugglega ekkert verri en hver önnur vara. Kannski er hún jafnvel betri. En merkið tryggir ekki gæðin á meðan hver sem er getur notað það á hvað sem er. Um lífræna vottun gegnir allt öðru máli. Hún felur í sér óháða staðfestingu þriðja aðila á að framleiðslan standist strangar kröfur, sem eru í þokkabót í aðalatriðum þær sömu hvar sem er í heiminum, í það minnsta í Evrópu. Merki um lífræna vottun má enginn nota nema hann hafi uppfyllt öll skilyrði, og reyndar má heldur enginn markaðssetja landbúnaðarafurðir sem lífrænar nema varan beri vottunarmerki því til staðfestingar. Ef neytendur rekast á vörur úti í búð sem sagðar eru vera lífrænar en eru ekki með merki því til staðfestingar, þá er þar um ólöglega markaðssetningu að ræða.

 En sem sagt: Við erum vöknuð upp við vondan draum og búin að átta okkur á því að vistvæna vottunin er marklaus. Og á næstu vikum eða mánuðum er von á tillögum um nýtt og betra fyrirkomulag frá starfshópi landbúnaðarráðherra. Kannski verður lendingin sú að það sem nú er kallað „vistvænn landbúnaður“ heiti framvegis „landbúnaður“.