Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Merkasti kumlafundur í rúma öld

27.06.2017 - 17:31
Allt bendir til þess að kona hafi hvílt í einu kumlanna sem fornleifafræðingar rannsaka nú á Dysnesi við Eyjafjörð. Kumlin eru svo stór að rúm öld er síðan jafnmerk kuml fundust.

Á Dysnesi keppast menn og konur við að bjarga fornminjum úr kumlum og vissara er að sigta moldina svo ekkert fari fram hjá vökulu auga fornleifafræðinga.

„Það sem er kannski mest sérstakt við þennan stað og einkennir hann er stærðin á þessum kumlum sem við erum að finna hérna ,“ segir Hildur Gestsdóttir, fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum á Dysnesi. „Við erum með tvö stór bátskuml og þar fyrir utan fjóra hauga sem virðast vera upp í átta metrar á lengd,“ segir Hildur. 

Í öðru bátskumlinu sem grafið hefur verið upp, sjást vel bæði þverbönd og borð. Þá liggur þar lærleggur af manni. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðminjasafn Danmerkur

Kumlin á Dysnesi eru svo stór að þau minna einna helst á kumlateiginn sem Daniel Bruun fann rétt við Dalvík og sagt var frá í blaðinu Reykjavík í ágúst 1909. Greinin í Reykjavík heitir Merkur fornmenjafundur og hefst svona: „Það má með sanni segja, að þeir félagar, prófessor Finnur Jónsson og kaptein Daniel Bruun hafa farið mikla happaferð hingað til landsins á þessu sumri.“ Fram kemur að Bruun hafi fundið mann í einu kumlinu sem lagður var í skip ásamt hesti og hundi. 

„Þannig að það er orðið ansi langt síðan við komumst í að rannsaka eitthvað svipað þessu. og í rauninni ekki fleiri staðir sem eru neitt líkir,“ segir Hildur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þó svo að uppgröfturinn sé mjög skammt á veg kominn hafa fundist sverð, skjöldur og spjót, líklega tvö. Tvær skýringar eru líklegastar á svo ríkulegum kumlum. „Hvort þetta sé vísbending um að hérna hafi verið ríkari verið grafnir eða hvort þetta sé staðbundin hefð, að í Eyjafirðinum hafi menn heygt stórt yfir grafirnar sínar,“ segir Hildur.

Bein og nokkrar höfuðkúpur hafa fundist. „Úr einum haugnum er ansi smágerður einstaklingur sem er líklegast kona,“ segir Hildur.