Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Mér þykir þetta leitt, herra forseti“

epa05706720 (FILE) A file picture dated 21 January 2008 shows New York Senator Hillary Clinton (L) and Illinois Senator Barack Obama (R) checking notes during a break in the CNN/Congressional Black Caucus democratic party presidential debate at the Palace
 Mynd: EPA
Skömmu eftir að Hillary Clinton játaði ósigur sinn í bandarísku forsetakosningunum í símtali sem hún átti við Donald Trump bað hún Barack Obama forseta afsökunar. Þetta kemur fram í nýrri bók blaðamannanna Jonathan Allen og Amie Parnes þar sem fjallað er ítarlega um kosningabaráttu Clinton fyrir forsetakosningarnar síðasta haust. Þar er fjallað um átök og mistök í kosningabaráttu Clinton og dregin upp mynd af frambjóðandanum og kosningastjórn hans.

Þau Allen og Parnes fengu náinn aðgang að samherjum Clinton meðan á baráttunni stóð gegn loforði um að greina ekki frá samtölum og uppgötvunum sínum fyrr en eftir kosningar. Bókin kom út í gær.

Í bókinni er fjallað um kosningabaráttu fyrstu konunnar sem átti raunhæfa möguleika á að verða forseti og vonbrigðum hennar og stuðningsmanna hennar á kosninganótt þegar talning leiddi í ljós að hún hefði tapað kosningunum.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Sundrungin vel falin

Ein af skýringunum sem hafa verið gefnar á því að Clinton tapaði forkosningum Demókrata fyrir forsetakosningarnar 2008 er að kosningastjórnin hafi verið sundruð. Deilur hafi dregið máttinn úr baráttunni og varpað skugga á hana. Allen og Parnes segja að sömu vandræði hafi háð kosningabaráttu Clinton 2016 en þau vandræði hafi verið falin betur en áður.

Höfundarnir segja að gamla samherja Clinton, sem lengi hafa starfað með henni, og nýrri þátttakendur í baráttu hennar, hafi greint á um aðferð. Innan hópsins hafi menn hikað við að benda á vandamál og þegar slíkt var gert voru menn ýmist hunsaðir eða ýtt til hliðar.

Mistök kosningastjórans

Robby Mook, kosningastjóri Clinton, fær sinn skerf af gagnrýni. Meðal mistaka hans megi nefna vanmat á Bernie Sanders og kröfu almennings um breytingar og fráhvarf frá valdakjarna í Washington. Þrátt fyrir að þetta hafi opinberast í forkosningunum hafi það ekki leitt til nauðsynlegra breytinga. Höfundarnir segja Mook hafa lagt höfuðáherslu á að vinna með gagnagrunna en á móti hafi hann dregið úr notkun skoðanakannana og hirt of lítið um að ná til kjósenda með því að gamalkunnum aðferðum á borð við að fá sjálfboðaliða til að ganga hús úr húsi og fara út á meðal almennings.

Höfundarnir segja að ábyrgðin á því hvernig fór liggi hjá Clinton. Annars vegar vegna eigin þátta, svo sem tölvupóstahneykslisins og þess að hún þáði háar fjárhæðir af fjármálafyrirtækjum fyrir ræðuhöld og hins vegar vegna þess að hún hafi ekki tekið á því þegar Mook gerði mistök og mótaði ranga stefnu í baráttunni. Jafnvel þó Clinton sjálf efaðist um kosningastjóra sinn.

epa05621888 US Democratic presidential candidate Hillary Clinton (C), her husband former president Bill Clinton (2-R), their daughter Chelsea Clinton (C-R), US singer Lady Gaga (L) and US singer Jon Bon Jovi (R) participate during Hillary Clinton's
 Mynd: EPA

Bill mælti gegn afsökunarbeiðni

Eitt af átakamálunum meðal helstu kosningaráðgjafa Clinton var hvernig taka ætti á tölvupóstahneykslinu sem umlék hana. Hillary Clinton notaði tölvupóst sem vistaður var á hennar netþjóni í stað þess að nota opinbert tölvupóstkerfi þegar hún var utanríkisráðherra. Þetta reyndist þungt á metum í kosningabaráttunni. Andstæðingar Clinton sóttu að henni fyrir þetta og alríkislögreglan rannsakaði málið.

Því er haldið fram í bókinni að Bill Clinton, eiginmaður Hillary og fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hafi ráðlagt henni að biðjast ekki afsökunar. Hún ætti þess í stað að útskýra hvers vegna hún hefði notað eigin netþjón fyrir tölvupóstsamskipti og ítreka að hún hefði ekki brotið af sér. Þetta gekk þvert á ráðgjöf helstu ráðgjafa Clintons sem hvöttu hana til að biðjast afsökunar – óháð því hvort hún teldi sig hafa gert eitthvað af sér eða ekki.

Clinton fylgdi ráðum Bills framan af. Hún játaði þó í sjónvarpsviðtali í september 2015 að það hefðu verið mistök að nota eigin tölvupóstkerfi, sagði að sér þætti það leitt og kvaðst taka fulla ábyrgð á því.

Mynd með færslu
Barack Obama. Mynd: EPA

Þrýstingur fráfarandi forseta

Parnes og Allen lýsa kosninganótt Clinton-hjónanna þar sem þau voru umkringd helstu ráðgjöfum sínum og stjórnendum kosningabaráttunnar. Þeir segja Bill hafa komist í uppnám en Hillary orðið hljóðláta eftir því sem leið á kvöldið og horfur hennar urðu sífellt dekkri. Á sama tíma hafi aðstoðarmenn Clinton farið að varpa sök hver á annan.

Barack Obama Bandaríkjaforseti þrýsti á um að Clinton játaði ósigur sinn tímanlega til að úrslit og lögmæti kosninganna yrðu ekki dregin í efa. Hann lét einn helsta aðstoðarmann sinn hringja í kosningastjóra Clinton til að hvetja hana til að játa ósigur. Þegar það dugði ekki til hringdi Obama sjálfur í Clinton og sagði henni að hún yrði að játa ósigur. Það gerði hún eftir að Obama hringdi annað símtal, til John Podesta og þrýsti á um slíka yfirlýsingu. Podesta var formaður kosningastjórnar Clinton og einn valdamesti maðurinn í Hvíta húsinu síðustu ár forsetatíðar Bills Clintons.

„Til hamingju, Donald“, sagði Clinton við sigurvegara kosninganna og hét því að styðja framgang landsins og þar með hans eigin.

epa05914180 US  President Donald J. Trump returns to the White House in Washington, DC, USA, on 18 April 2017. Trump was returning from a day trip to Wisconsin where he visited Snap-on tools.  EPA/KEVIN DIETSCH / POOL
 Mynd: EPA - UPI POOL
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV