Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Mér finnst þessi skýrsla dálítið sérstök“

11.10.2013 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, gagnrýnir harðlega skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. Hann vísar því á bug að Ríkisendurskoðun hafi verið vanhæf til að gera úttekt á sjóðnum, eins og haldið er fram í skýrslunni.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallar nú um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð. Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, sat fyrir svörum hjá nefndinni. Hann gagnrýndi skýrsluna og kostnað við gerð hennar. Hann benti á að Alþingi hafi samþykkt að rannsóknarnefndin fengi sex mánuði til að vinna skýrsluna og 70 milljónir króna væru ætlaðar í verkið, en reyndin hafi orðið sú að verkið hafi tekið 22 mánuði og kostað 250 milljónir króna. Í stuttu máli fannst ríkisendurskoðandanum fyrrverandi ekki mikið til skýrslunnar koma.

„Ég verð að segja það að þegar maður fer í gegnum þetta finnst mér vanta alveg geypilega mikið faglega nálgun á þessu máli hérna. Hvernig þeir taka viðfangsefnin, hvernig þeir leggja áherslu á hvað er veigamikið og ekki. Síðan sýnist mér oft og iðulega þegar menn draga fram ályktanir þá sé það ekki ætíð í samræmi við það upplýsingarnir sem greiningin er að gefa. Þannig að mér finnst þessi skýrsla dálítið sérstök, ég vil ekki segja meira um það,“ sagði Sigurður.

Eitt af því sem Ríkisendurskoðun er gagnrýnd fyrir er að hún hafi séð um úttekt á Íbúðalánasjóði á sama tíma og stofnunin sá um innri endurskoðun á sjóðnum. „Ég vil bara segja það hérna að þau verkefni og hvernig aðkoma Ríkisendurskoðunar var að þessu máli, henni bar bara einfaldlega lagaleg skylda til að sinna þessu. Þetta eru verkefni stofnunarinnar og hún vann það samkvæmt þeim lögum sem um hana fjalla, það er ekki flóknara en það.“

Ríkisendurskoðandinn fyrrverandi hafnaði því að fjárfestingar- og útlánastefna sjóðsins hafi verið ólögmæt og sagði að fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs mætti fyrst og fremst rekja til bankahrunsins. „Hagnaður af rekstri án áhrifa bankahrunsins á þessu tímabili var tæplega 18 milljarðar. Hins vegar kemur þarna inn vegna bankahrunsins eitthvað um 58,8 milljarðar, þannig að það er um 41 milljarður sem er tap.“