Menntun sem snýst um að virkja öll skynfæri

Menntun sem snýst um að virkja öll skynfæri

04.03.2016 - 10:06

Höfundar

Menntun er of mikilvæg til að eftirláta hana skólafólki, er útgangspunkturinn í samsýningunni „Aftur í sandkassann – listir og róttækar kennsluaðferðir“ sem stendur nú yfir í Hafnarhúsinu. Sýningarstjórinn segir að í núverandi mynd sé menntakerfið ólýðræðislegt og standi sköpunargáfu nemenda fyrir þrifum. En hvað geta listir lagt af mörkum í almennu skólastarfi?

Sýningin Aftur í sandkassann byggir á samstarfi alþjóðlegra listamanna, vísindamanna og kennara sem eru leiðandi hver á sínu sviði. Á henni hefur Jaroslav Anděl sýningarstjóri valið nokkur verk sem spyrja spurninga um eðli og hlutverk menntunar. Meðal annars er bent á tvær mótsagnarkenndar hliðar hennar: Annars vegar er bent á að menntun og lærdómur hafi frelsandi áhrif og tengist lýðræði.  Hins vegar sé menntakerfið afurð stofnanavæðingar þar sem áhersla er lögð  á einsleitni og undirgefni.

Anděl eru hugleikin orð sálfræðingsins Jean Piaget um að menntun sé það eina sem geti komið í veg fyrir hrun samfélagsins.

„Þetta var skrifað árið 1934. Atburðir samtímans í heiminum eru mjög áþekkir ástandinu á fjórða áratugnum. Borgarastyrjaldir, lýðskrumarar, popúlistaríkisstjórnir spretta upp. Þess vegna er menntun of mikilvæg til þess að hún sé eingöngu falin skólafólki. Þetta snertir okkur öll,“ segir hann.

Að gera manneskjur að tannhjólum og gírum

Anděl segir að menntun og list tengist að því leyti að báðar greinar leggi sitt af mörkum til einhvers sem gerir okkur mannleg.  Jákvæð hlið menntunar sé sú að hún sé upplýsandi og ýti undir frelsi okkar en hún eigi sér líka neikvæðari hlið sem sé stofnanavæðing og stöðlun.

„Allar þessar kannanir, Bologna og Pisa, nefndu það bara. Um hvað snúast þær? Frammistöðu og afköst. Þær mæla ekki það sem gerir okkur mannleg. Það er verið að vélvæða okkur og gera manneskjur að tannhjólum og gírum í einhverju iðnaðarferli. Skólar eru ekki lýðræðislegar stofnanir. Þar eru valdsmanneskjur, kennararnir, og allt snýst um aga og stjórn og að drepa sköpun og frumkvæði.“

Lýðræði ein af grunnstoðum menntastefnunnar

Hugmyndir Anděl kallast meðal annars á við víðfrægan TED-fyrirlestur Ken Robinson um að skólakerfið beinlínis kæfi niður sköpun.  Og Ísland er auðvitað ekkert undanskilið þessari umræðu. Kristín Valsdóttir, deildarstjóri listkennsludeildar Listaháskóla Íslands, tekur undir með Anděl um að menntakerfið sé ekki sérstaklega lýðræðislegt. Námsskrá sé ákveðin af ráðuneyti og nemendur hafi lítið um námið að segja.

„Hér á íslandi erum við með menntastefnu sem tók gildi 2011. Það eru sex grunnstoðir og ein af grunnstoðunum sem við eigum að ganga út frá í öllu skólastarfi er lýðræði. Við eigum að skerpa á lýðræðislegum vinnubrögðum, að vinna þannig að við séum að hvetja nemendur til að taka þátt, hafa skoðun, til að takast á um álitamál til að efla þá sem sjálfstæða einstaklinga sem geta raunverulega tekið þátt í lýðræðislegu samfélagi.“

Tregðulögmálið

Kristín bendir á að síðastliðna öld hafi komið fram margir kennismiðir sem hafi sýnt fram á að sú leið að steypa nemendur í sama mót á eins konar færibandi menntakerfisins skilar ekki árangri. Um allt skólakerfið megi finna ríkan vilja til breytinga en tregðulögmálið láti ekki að sér hæða.

„Það er eðli stofnana að viðhalda sjálfum sér. Ég hef upplifað það að vinna í stofnun þar sem er virkilega verið að breyta og auka ábyrgð nemenda, lýðræði og valfrelsi á grunnstigi. Það er vilji skólans og kennara en þá kemur þrýstingur utan frá, sem getur komið til dæmis frá foreldrum.“  

Kristín telur að hið almenna skólakerfi gæti grætt mikið á að tileinka sér nálgun listanna í auknum mæli, til dæmis að virkja forvitni nemenda og þjálfa þá í að hrinda hugmyndum í framkvæmd.

„Það er tækni að læra að lesa og hún getur opnað okkur heim. En við eigum að læra aðrar aðferðir til tjáningar, eins og að vinna í gegnum margvísleg efni, tóna og hreyfingu. Ef við ætlum að mennta alla manneskjuna verðum við að virkja öll skynfæri.“