Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Menntakerfi Nepals í molum

07.05.2015 - 12:07
Erlent · Hamfarir · Asía · Nepal
epa04727996 A photograph made available on 01 May 2015 showing Nepali children playing soccer in front of a house destroyed in the 25 April earthquake in Baluwa village in Gorkha district, Nepal, 30 April 2015. The epicenter of the 25 April earthquake was
 Mynd: EPA
Menntakerfi Nepals er hrunið eftir jarðskjálftann mikla í lok apríl og milljón börn geta ekki lengur gengið í skóla. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir að ef ekkert verði að gert sé meira en tveggja áratuga uppbyggingarstarf unnið fyrir gíg.

Skólahald átti að hefjast eftir rúma viku í Nepal en stór svæði eru enn í rúst eftir skjálftann og innviðir ríkisins í molum. Í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir að svo margar skólabyggingar hafi skemmst eða hrunið að tæp milljón barna hafi nú engan skóla að sækja.

Það er ekki aðeins alvarlegt vegna þess að börnin verða af menntun heldur gegna skólar mikilvægu hlutverki við að vernda börn á hamfarasvæðum. Þeir veita meðal annars skjól og afdrep fyrir börn sem verða munaðarlaus eða viðskila við foreldra sína.

Eftir skjálftann hefur borið á því að glæpagengi herji á börnin, ræni þeim og selji í vændi eða annan þrældóm. Áætlað er að um 60.000 nepölsk börn séu seld mansali á hverju ári og viðbúið er að þeim fjölgi mikið nú þegar neyðin er stærst.

Þar fyrir utan er áratugalangt uppbyggingarstarf í hættu. Mikill árangur hefur náðst í að auka aðgengi að menntun í Nepal; árið 1990 voru aðeins rúmlega 60 prósent barna í skóla en í fyrra 95 prósent.

Í skýrslu UNICEF segir að án öflugs stuðnings alþjóðasamfélagins sé hætta á að þessi mikli árangur glatist. Rannsóknir hafi sýnt að því lengur sem börn séu frá námi í kjölfar hamfara, því minni líkur séu á að þau snúi aftur í skóla. Það getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið til lengri tíma.

Söfnun UNICEF fyrir neyðaraðstoð hefur gengið vel hér á landi en þeir sem vilja leggja henni lið með 1.500 króna framlagi geta sent SMS skilaboðin unicef í númerið 1900.