Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Menningarárekstrar múslima á Íslandi

Mynd: RÚV / RÚV

Menningarárekstrar múslima á Íslandi

30.10.2019 - 21:00

Höfundar

Ólafur Jóhann Ólafsson fjallar um múslima í nýrri bók sinni, tilveru þeirra á Íslandi og menningarárekstra í vestrænu samfélagi. Ungur erlendur maður finnst látinn í Örfirisey og um sömu helgi verða landsmenn helteknir af hvarfi ungrar, íslenskrar stúlku sem gufar sporlaust upp.

Það er hávetur á Íslandi í söguheimi Innflytjandans eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Hvítur snjór hylur grund og lýsir upp bleksvartan vetrarhimin og ófært er víða um land. Ungur maður af erlendu bergi brotinn gengur frá á skyndibitastað á Ingólfstorgi og finnst svo látinn úti í Örfirisey á dimmum og köldum febrúardegi. Íslensk kona kemur til landsins frá New York og flækist inn í atburðarásina. Í sögunni eru ólíkir menningarheimar á sveimi og þeir rekast á. „Hér eru á ferðinni spekúlasjónir um að vera hluti af heild eða ekki. Þetta er lítill atburður á Íslandi en hann endurspeglar kannski það sem er um að vera í heiminum um þessar mundir,“ segir Ólafur. 

Einn atburður litar heilan hóp múslima

Það er að mörgu leyti mjög viðkvæm tilvera að vera múslimi í vestrænu ríki, viðurkennir Ólafur, umræðan um menningu og trú þeirra beinist gjarnan að hryðjuverkaógn og samfélagið er jaðarsett. Hann segir að veruleikinn sé ekki eins hér og í þeim ríkjum þar sem samfélag múslima er stærra. „Hér er náttúrulega múslimasamfélag en jafnvel það samfélag er klofið. Eins og gengur og gerist eru sumir meiri bókstafstrúarmenn en aðrir en einn atburður litar í augum margra heilan hóp fólks.“ Hann segist finna töluvert meira fyrir þessum menningarárekstrum í Bandaríkjunum.

Miðaldra konur ryðja körlunum burt

Aðalpersóna bókarinnar er eldri kona, Hildur Haraldsdóttir, sem hefur verið búsett í New York um árabil. Þetta er í annað skiptið í röð sem sagan er sögð frá sjónarhóli eldri konu en í síðustu bók Ólafs, Sakramentinu, var það nunna sem var einnig lesbía sem leiddi söguna. „Þegar ég byrjaði á þessari átti þetta reyndar að vera karlmaður. Það var svona hugsunin í upphafi, en hún kom bara inn í hausinn á mér þessi kona og ruddi karlinum út,“ segir Ólafur glettinn. „Maður réði ekkert við þetta, þær taka völdin.“

Hitti Donald Trump í samkvæmi

Hildi Haraldsdóttur í Innflytjandanum liggur þungt orð til Bandaríkjaforseta. Hún segir að hér sé á ferð maður sem hafi verið þekktur í New York fyrir loddaraskap og brask. Ætli sögumaður og höfundur mætist hér í skoðunum á pólitík í Bandaríkjunum? „Já, ég get alveg viðurkennt að þarna eru höfundur og sögupersóna ekkert fjarri hvort öðru,“ segir Ólafur og hlær. „Það var alltaf orðspor hans í þessu kreðsum að hann væri loddari, sölumaður og uppskafningur enda vita þeir sem þekkja hann úr borginni ekki hvað á sig stendur veðrið.“

Höfundurinn þekkir viðskiptalífið í Bandaríkjunum vel og á að baki áratuga farsælan feril í bandarísku viðskiptalífi. Sjálfur hefur hann hitt Donald Trump í eigin persónu. „Ég hitti hann einu sinni í lítilli samkomu en þekki hann ekkert,“ segir hann.

Finnur ekki fyrir fráhvarfseinkennum

Ferli Ólafs sem viðskiptamanns er þó lokið að minnsta kosti í bili en hann var aðstoðarforstjóri fjölmiðlaveldisins Time Warner þar til fyrir rúmu ári. „Ég get lýst sjálfum mér sem atvinnuleysingja þótt sumir myndu halda að það að skrifa bækur sé vinna,“ glottir hann.

Hann segist ekki finna fyrir fráhvarfseinkennum eftir að hafa snúið baki við viðskiptalífinu. „Ég hef notið þessa nýja frjálsræðis mjög. Nú get ég aðeins staldrað við og þarf ekki alltaf að vera á hlaupum.“

Endaði í viðskiptum af slysni

Það er þó nóg um að vera fram undan hjá Ólafi því ásamt því að fylgja bókinni eftir er undirbúningur hafinn á útgáfu Sakramentisins á ensku. Honum hefur upp á síðkastið einnig verið boðin seta í ólíkum stjórnum en hann segist ekki hafa áhuga á að fara í fullt starf aftur. „Ég hef ekki fundið ástríðuna, ég endaði í viðskiptum af slysni.“

Egill Helgason ræddi við Ólaf Jóhann Ólafsson í Kiljunni og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Afvopnar mann hvað þessi bók er falleg“

Bókmenntir

Mósaíkmynd af veruleika íslenskra nasista

Bókmenntir

Skemmtisaga sem stendur ekki undir væntingum