Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Mengunarslys vofir ekki yfir

04.01.2012 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Matvælastofnun leyfði dreifingu á áburði frá Skeljungi síðasta vor, áður en niðurstöður úr kadmíum mælingum voru tilbúnar, þar sem innflutningur fyrri ára hafði verið í lagi. Landbúnaðarráðherra telur ekki að mengunarslys sé í uppsiglingu, þótt mengaður áburður hafi verið borinn á síðasta vor.

Matvælastofnun sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að dreifing á áburði sem Skeljungur flytur inn verði ekki heimiluð fyrr en efnagreining sýni að varan standist kröfur, þar á meðal um kadmíum innihald. En síðasta vor var dreifing heimiluð, þótt niðurstöður kadmíum mælinga væru ekki tilbúnar - þar sem innflutningur síðustu ára hafði verið í lagi. Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðarráðherra segir það óheppilegt að þetta hafi gerst - en þetta þýði ekki að alvarlegt mengunarslys sé í uppsiglingu.  Þetta sé ekki stóralvarlegt og verði ekki af mengunarslys. Þá fyrst yrði þetta alvarlegt  ef þetta gerðist ár eftir ár eða í ríkum mæli og jafnvel þá tæki það langan tíma því hér séu mörkin ströng. 

Sex til átta vikur hefur tekið að fá niðurstöður úr þessum mæliingum - því sýni eru send erlendis - og það þýðir að áburðurinn er í mörgum tilvivkum kominn til kaupenda - og jafvel búið að bera hann á tún. Steingrímur segir að auðvitað væri best að við ættum sjálf mælitæki, en það þurfi að huga í kostnaðinn. 

Vegna þess að hér hafi verið um einstakt tilvik að ræða en ekki bráða hættu og vegna þess að áburðurinn var að verulegu leyti farinn í dreifingu var ákveðið að krefjast ekki innköllunar. 

Og í yfirlýsingu sem Skeljungur sendi frá sér vegna málsins segir að fyrirtækið beri að sjálfsögðu ábyrgð á öllum þeim vörum sem fyrirtækið dreifir, bæði gagnvart viðskiptavinum sínum og yfirvöldum, í samræmi við íslensk lög. Skeljungur hafi fengið upplýsingar um að kadmíum-innihald í áburðinum væri yfir viðmiðunarmörkum hinn 25. maí í fyrra. Matvælastofnun hafi hins vegar ekki séð ástæðu til að stöðva dreifingu áburðarins. Þá segir í yfirlýsingunni að engar takmarkanir séu í gildi í Evrópusambandinu um kadmíum-magn í áburði, ólíkt því sem hér sé.