Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mengun möguleg orsök sauðfjárdauða

10.06.2015 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Rannsakað verður sérstaklega hvort óvenjulegur sauðfjárdauði í vor stafar af mengun frá eldgosinu í Holuhrauni. Þetta segir dýralæknir sem heldur utan um rannsóknina. Matvælastofnun hefur fengið undanþágu frá verkfalli dýralækna til að hægt sé að rannsaka féð.

Engin haldföst skýring fundinn enn
Einkennin eru meðal annars þau að kindurnar éta vel en halda ekki holdum og mjólka illa eða ekki eftir burð. Fé virðist hafa drepist í öllum landshlutum og bændur hafa gefið mismunandi skýringar á því hver orsökin gæti verið. Lélegt hey, kalt sumar og vanhöld er á meðal þess sem hefur verið nefnt. Margrét Katrín Guðnadóttir dýralæknir segist efast um að eitthvað af þessu geti verið orsökin. Ekki sé hægt að finna neinn samnefnara með öllum þeim búum þar sem fé hefur drepist. Einnig efast hún um að smitsjúkdómur geti verið orsökin.

„Við vonumst til að fá einhverja niðurstöðu úr blóðrannsókn það er búið að senda nokkrar í krufningu en það hafa ekki komið nein svör úr hefðbundinni krufningu.“

Undanþága veitt frá verkfalli til að hægt sé að rannsaka
Matvælastofnun hefur fengið undanþágu frá verkfalli dýralækna svo að hægt sé að rannsaka féð. Blóðsýni verða tekin úr sauðfé alls staðar að af landinu og send til greiningar í Noregi. Einn möguleikinn er að þetta séu áhrif af brennisteinsmengun frá eldgosinu í Holuhrauni og verður það rannsakað sérstaklega.

Já það verður gert og við sjáum það í blóðsýni, hvort að við sjáum mikið af einhverjum vítamínum og steinefnum og ef svo er þá munum við kafa dýpra í það vandamál en þetta er á svoddan grunnstigi eins og er að við verðum fyrst að sjá hvað frumblóðsýnataka segir okkur áður en við getum farið að velta okkur upp úr svona stökum hypotesum.

Bændur þurfa að bara að bíða
Margrét Katrín segir að mögulega verði hægt að gera ráð fyrir einhverjum niðurstöðum um miðja næstu viku, en er hægt að gefa bændum með veikt fé einhver ráð þar til niðurstöður fást?

Nei ég get ekki séð það í hendi mér svona einn tveir og tíu það er bara að halda áfram að reyna að fóðra þær og gefa þeim einhverskonar bætiefni, en þær sögur sem maður er búin að heyra frá bændum er bara að það virki ekkert sem þeir hafi reynt.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV