Mengun frá stórbruna veldur áhyggjum

01.10.2019 - 17:35
Mynd: EPA-EFE / Radio France/PPP
Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, lofar því að engu verði leynt um eldsvoða í efnaverksmiðju í norðurhluta landsins í síðustu viku. Áhyggjur vaxa í landinu vegna mengandi efna sem sluppu út í andrúmsloftið.

Eldur kom upp aðfaranótt síðasta fimmtudags í birgðageymslu verksmiðjunnar Lubrizol í Rouen eða Rúðuborg, eins og hún nefnist á íslensku. Þar eru framleidd smurefni fyrir vinnuvélar og íblöndunarefni fyrir eldsneyti.

Mikinn og kolsvartan reyk lagði frá eldinum. Sót dreifðist um 22 kílómetra svæði út frá verksmiðjunni. Ekki náðist að slökkva hann fyrr en á föstudagsmorgun. Philippe forsætisráðherra kynnti sér aðstæður í gær. Hann hét þingmönnum á franska þinginu í dag að birta fljótlega lista yfir öll efni sem brunnu.

Stæk fýla er enn í Rúðuborg og nágrenni eftir eldsvoðann. Bændum í nágrenninu hefur verið bannað að selja afurðir sínar og eiga raunar að farga þeim. Tún þeirra og akrar eru þakin sóti.

Að minnsta kosti fimm skólar í Rúðuborg voru ýmist lokaðir í dag eða foreldrar beðnir að sækja börn sín vegna ofanfalls. Einn skólastjórinn sagði að sterkur ódaunn væri bæði innan dyra og utan.

Yfirvöld umhverfismála hafa frá því fyrir helgi tekið sýni daglega úr vatni, jarðvegi og úr lofti til að kanna ástandið í grennd við Lubrizol verksmiðjuna. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi