Mengun eykur kaup á hjartalyfjum

05.08.2012 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Þegar umferðarmengun er í Reykjavík kaupa hjartasjúklingar meira af hjartalyfjum. Þetta kemur fram í rannsók sem Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir umhverfis- og auðlindafræðingur gerði.

Loftgæði á Íslandi eru almennt talin góð en við ákveðnar aðstæður geta þau farið yfir heilsuverndarmörk. Skoðað var í rannsókninni hvort fylgni væri á milli styrks niturdioxiðs í andrúmslofti sem er umferðarmengun   og úttektar á hjartalyfjum sem tekin eru við hjartaöng. 

Hjartaöng er skjótur og sár verkur í brjósti sem verður vegna ónógrar súrefnismettunar í hjartavöðvunum og við henni eru teknar nitroglýserin töflur sem oft eru kallaðar sprengitöflur „Þetta kom þannig út að sama dag og var aukning í niturdioxiði þá var aukning í þessum hjartalyfjaúttektum alveg upp á 13%  og þetta sást einnig daginn eftir og það var alveg upp á 9%,“ segir Ragnhildur Guðrún.

Guðrún segir að rannsaka þurfi enn frekar tengslin á milli mengunar og heilsufars.  Hafa verði í huga að þó svo fylgni sé á milli mengunarinnar og lyfjakaupana þýðir það ekki að að búið sé að staðfesta að mengunin valdi hjartasjúkdómum. „Kannski frekar er þetta vísbending um það að loftmengun á borð við nitrodioxið og ozon líka geti leitt til versnandi áhrifa og í rauninni hafi slæm áhrif á þá sem eru með þessa sjúkdóma fyrir.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi