Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mengun dælt í iður jarðar

08.10.2014 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekki er hægt að merkja hvort mengun af völdum brennisteinsvetnis frá Hellisheiði hefur minnkað í byggð eftir að að niðurdæling þess hófst fyrir fjórum mánuðum. Þess er vænst að það verði í vetur. Þegar er búið að dæla niður 1.000 tonnum.

Brennisteinsvetnismengun hefur verið töluverð frá Hellisheiðarvirkjun. Mest er hún næst heiðinni eins og við skólasvæði í Lækjarbotnum. Öflug lofthreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun hefur gefið góða raun síðan hún var gangsett og nú er talið að takist að dæla þriðjungi af öllu brennisteinsvetni sem myndast í virkjuninni hundruð metra ofan í jörðu undir grunnvatnsyfirborð. 

„Við erum í raun og veru ekki farin að sjá í loftgæðamælistöðvunum okkar, sem eru bæði staðsettar hérna við virkjanirnar og í byggð, hver niðurstaðan er að verða úr þessu,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. „En við eigum von á því í vetur þegar veðurskilyrði verða þannig að það séu meiri líkur að styrkur fari yfir mörk í byggð að þá sjáum við vonandi niðurstöður og árangur af rekstri stöðvarinnar.“

Vegna niðurdælingarverkefnisins fékk Orkuveitan tveggja ára undanþágu í sumar frá reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti en í sumar voru mörkin hert. Orkuveitan má því fara fimm sinnum yfir leyfilegt sólarhringsmörk sem eru 50 míkrógrömm í rúmmetra. Hingað til hefur Orkuveitan ekki farið yfir mörkin.

Kostnaður við verkið er áætlaður 550 milljónir króna. Gangi það að óskum verður langmestu af brennisteinsvetninu dælt í jörð og afganginum jafnvel lengst upp í andrúmsloftið gegnum gufuháf.