Meistararnir byrja úrslitakeppnina vel

epa07505244 LA Clippers forward Montrezl Harrell (L) and Golden State Warriors center Kevon Looney (R) reach out for a loose ball during the second half of the NBA Western Conference Playoffs game one at Oracle Arena in Oakland, California, USA, 13 April 2019.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Meistararnir byrja úrslitakeppnina vel

14.04.2019 - 06:53
Fyrsta umferð úrslitakeppni NBA deildarinnar hófst í gærkvöld með leikjum í austurdeildinni. Úrslit beggja leikja urðu nokkuð óvænt, því Orlando Magic, sem varð í sjöunda sæti, lagði Toronto Raptors, sem endaði í öðru sæti, með 104 stigum gegn 101, og Brooklyn Nets, sem varð í sjötta sæti, vann útisigur gegn Philadelphia 76ers, sem endaði í þriðja sæti, með 111 stigum gegn 102.

Í nótt voru svo tveir leikir háðir í fyrstu umferðinni í vesturdeildinni. Ríkjandi meistarar Golden State Warriors höfðu betur gegn Los Angeles Clippers með 121 stigi gegn 104. Eins og svo oft áður leiddi Stephen Curry vagn meistaranna og skoraði 38 stig, þar af átta þriggja stiga körfur. Með þeirri áttundu varð hann sá leikmaður í NBA deildinni sem hefur skorað flestar þriggja stiga körfur í sögu úrslitakeppninnar, 386 talsins. Komst hann þar með upp fyrir Ray Allen. Curry hefur skorað körfurnar 386 í 91 leik, en Allen þurfti 171 leik til að skora sínar 385 körfur.

San Antonio Spurs hóf einvígi sitt gegn Denver, sem lenti í öðru sæti, með útivallarsigri, 101-96.

Fjórir leikir fara fram í kvöld og nótt. Þá tekur Boston Celtics á móti Indiana Pacers, og Milwaukee Bucks, sem vann flesta leiki allra liða í deildinni í vetur, tekur á móti Detroit Pistons. Í Vesturdeildinni fer Oklahoma City Thunder til Portland Trail Blazers, og Utah Jazz fer suður til Texas þar sem Houston Rockets taka á móti þeim.