Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Meirihlutinn heldur í borginni

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Meirihlutinn í Reykjavík heldur velli ef marka má niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var á vef blaðsins í nótt. Samfylkingin, Vinstri græn og Píratar myndu hljóta 12 borgarfulltrúa af 23 samkvæmt könnuninni.

Sjálfstæðisflokkurinn yrði stærsti flokkurinn í Reykjavík með rúmlega 35 prósenta fylgi og níu borgarfulltrúa. Samfylkingin væri með sjö fulltrúa og rúmlega 27 prósenta fylgi, Vinstri græn með 12 prósenta fylgi og þrjá fulltrúa og Píratar myndu hljóta tvo fulltrúa með tæplega 9 prósenta fylgi.

Miðflokkurinn og Viðreisn myndu bæði fá fulltrúa í borgarstjórn, Miðflokkurinn hlýtur 6 prósenta fylgi í könnuninni og Viðreisn rúmlega 4 prósent. Framsóknarflokkurinn og Björt framtíð komast ekki inn í ráðhúsið miðað við niðurstöðuna, Framsókn hlýtur 3,4 prósenta fylgi en Björt framtíð aðeins 0,7 prósent. Flokkur fólksins mælist með 1,9 prósenta fylgi og Sósíalistaflokkurinn 0,5 prósent.

Könnunin var gerð 26. og 27. febrúar. Hringt var í 1.322 með lögheimili í Reykjavík þar til náðist í 800, samkvæmt lagskiptu úrtaki. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri. Alls tóku 63,4 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar, eða rúmlega 500 manns.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV