Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Meirihlutinn féll í Reykjavík

Mynd með færslu
 Mynd:
Samfylkingin er stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur en meirihlutinn er fallinn samkvæmt úrslitum borgarstjórnarkosninga í Reykjavík. Píratar ná inn einum borgarfulltrúa í borginni, og þar með sínum fyrsta sveitarstjórnarmanni.

Samfylkingin fékk 31,9% atkvæða sem dugði henni til að fá fimm borgarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkur er næst stærsti flokkurinn með 25,7 prósent atkvæða og fjóra borgarfulltrúa. Björt framtíð fékk 15,6 prósent og tvo borgarfulltrúa. Framsókn og flugvallarvinir fengu einnig tvo borgarfulltrúa, með 10,7 prósentum atkvæða. Vinstri-græn fengu 8,3 prósent atkvæða og einn borgarfulltrúa og Píratar 5,9 prósent og einn borgarfulltrúa.

Næst inn í borgarstjórn voru þær Heiða Björg Hilmisdóttir, sem vantaði 170 atkvæði, og því næst Ilmur Kristjánsdóttir, en hana vantaði 259 atkvæði. 

Mikil spenna ríkti meðan á talningu atkvæða stóð í Reykjavík og breyttist fylgi flokkanna verulega í hvert skipti sem komu nýjar tölur. Meirihlutinn hélt samkvæmt fyrstu tölum en var fallinn þegar aðrar tölur bárust. Samfylkingin og Björt framtíð náðu aftur meirihluta í þriðju tölum en misstu hann í lokatölunum þegar fyrsti maður Pírata komst inn á kostnað sjötta manns Samfylkingarinnar.

Hvorki Dögun, 1,4 prósent, né Alþýðufylkingin, 0,4 prósent, fengu kjörinn fulltrúa í borgarstjórn.

Birting úrslita tafðist klukkustundum saman vegna þess innsláttarvillu á kjördeild. Það varð til þess að tölur stemmdu ekki. Mikil rekistefna var um þetta en það var ekki fyrr en rétt fyrir klukkan sjö sem starfsfólk Ráðhúss Reykjavíkur uppgötvaði villuna og var þá hægt að ljúka afstemmingu á skömmum tíma.

listi Atkvæði Hlutfall Sæti
B Framsóknarflokkur 5.865 10,73% 2
D Sjálfstæðisflokkur 14.031 25,68% 4
R Alþýðufylkingin 219 0,40% 0
S Samfylkingin 17.426 31,89% 5
T Dögun 774 1,42% 0
V Vinstrihreyfingin - grænt framboð 4.553 8,33% 1
Þ Píratar 3.238 5,93% 1
Æ Björt framtíð 8.539 15,63% 2

Borgarfulltrúar 2014 til 2018 eru sem hér segir: Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kristín Soffía Jónsdóttir og Skúli Helgason fyrir hönd Samfylkingar. Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir fyrir hönd Sjálfstæðisflokks. S. Björn Blöndal og Elsa Hrafnhildur Yeoman fyrir hönd Bjartrar framtíðar. Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir fyrir hönd Framsóknar og flugvallarvina. Sóley Tómasdóttir náði kjöri fyrir hönd Vinstri-grænna og Halldór Auðar Svansson fyrir hönd Pírata.

Tæplega einu prósenti munaði á sjötta frambjóðanda Samfylkingarinnar, Heiðu Björg Hilmisdóttur, og öðrum fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina.

[email protected]