Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meirihluti segist ætla að vera með gervijólatré

23.12.2019 - 17:42
Innlent · jól
Mynd með færslu
 Mynd: T. Rampersad - Unsplash
Vinsældir gervijólatrjáa virðast vera að aukast, samkvæmt könnun MMR. Alls sögðust 56 prósent landsmanna ætla að setja upp gervitré yfir hátíðarnar og hefur hlutfall þeirra aukist um sex prósentustig frá fyrstu könnun MMR árið 2010.

Hlutfall þeirra sem segjast ætla að setja upp lifandi tré hefur dregist saman um fimmtán prósentustig samanborið við árið 2010 og mældist nú 27 prósent. Þá fjölgar þeim sem ekki ætla að setja upp jólatré í ár og hefur fjöldi þeirra nær tvöfaldast frá upphafi mælinga. 17 prósent aðspurðra segjast ekki ætla að setja upp jólatré en hlutfallið var níu prósent í könnun ársins 2010. 

Konur reyndust líklegri en karlar til að vera með gervitré á sinum heimilum og karlar líklegri en konur til að sleppa því að vera með jólatré. Þá reyndust íbúar landsbyggðarinnar líklegri en íbúar höfuðborgarsvæðpisins til að vera með gervitré á heimili sínu en íbúar höfuðborgarsvæðisins líklegri en þau af landsbyuggðinni til að vera ekki með jólatré.  

Eftir því sem fólk verður eldra því líklegra virðist það til þess að sleppa því að vera með lifandi jólatré. 31 prósent svarenda á aldrinum 18 til 29 ára kváðust ætla að vera með lifandi tré á sínum heimilum, samanborið við 25 prósent þeirra 68 ára og eldri. Hlutfall þeirra sem kváðust ekki ætla að setja upp jólatré í ár jókst hins vegar með auknum aldri, frá fjórtán prósentum svarenda á aldrinum 18 til  29 ára til 22 prósent svarenda í þeim elsta, 68 ára og eldri.

Sé litið til stjórnmálaskoðana virðist stuðningsfólk Viðreisnar, Samfylkingar og Vinstri grænna líklegast til að vera með lifandi jólatré í ár en stuðningsfólk Framsóknarflokks og Miðflokks líklegast til að vera með gervitré. Stuðningsfólk Pírata reyndist líklegast til að segjast ekki ætla að hafa jólatré á heimili sínu í ár. 

 

Könnunin var gerð 13. til 19. desember. Þátttakendur, átján ára og eldri, voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR og var svarhlutfall 1.014 manns. 

Þau sem verða með lifandi jólatré geta skilað því á næstu endurvinnslustöð þegar það hefur þjónað sínu hlutverki. Í sumum tilfellum sækja sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu jólatré til íbúa en í Reykjavík hafa íþróttafélag og félagasamtök boðist til að sækja tré gegn greiðslu í fjáröflunarskyni. Jólatré eru send frá endurvinnslustöðvunum til frekari vinnslu í Álfsnesi og verða meðal annars stoðefni í moltugerð.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV