Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Meirihluti með gervijólatré

21.12.2018 - 13:10
Innlent · Jól · mannlíf
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Meirihluti landsmanna ætlar að skreyta heimili sín með gervijólatré í ár, samkvæmt könnun MMR. Tæp 55 prósent Íslendinga ætla að setja upp gervitré og tæp 32 prósent lifandi tré. 14 prósent svarenda ætla ekki að setja upp jólatré. Þetta eru svipuð hlutföll og í fyrra.

Fólk á aldrinum 30 til 49 ára er líklegra en fólk í öðrum aldurshópum til að setja upp jólatré. 89 prósent í þeim aldurshópi ætla að setja upp jólatré.

Sé litið til stjórnmálaskoðana eru stuðningsmenn Samfylkingarinnar líklegastir til að setja upp jólatré, 90 prósent. Litlu færri stuðningsmenn Viðreisnar, eða 89 prósent, ætla að setja upp jólatré. Samkvæmt könnuninni eru fylgjendur Pírata líklegri en stuðningsmenn annarra flokka til að setja ekki upp jólatré. Aðeins 22 prósent stuðningsmanna Pírata ætla að setja upp jólatré. Stuðningsmenn Flokks fólksins eru líklegastir til að setja upp gervitré, 72 prósent. Næstir koma stuðningsmenn Miðflokksins. 64 prósent þeirra ætla að setja upp gervijólatré.

Könnunin var gerð 5. til 11. desember 2018. 975 svöruðuðu könnuninni, 18 ára og eldri.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir