Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Meirihluti Breta vill vera áfram í ESB

20.04.2016 - 09:42
Ný könnun, sem birt er í Daily Telegraph, bendir til þess að þeir, sem vilja að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu, hafi styrkt stöðu sína verulega. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður um málið 23. júní.

Formleg kosningabarátta hófst á föstudag en ríkisstjórn Davids Camerons hafði raunar þá þegar látið dreifa bæklingi í hús með upplýsingum um afleiðingar úrsagnar úr Evrópusambandinu. Það vakti reiði margra sem berjast fyrir úrsögn því þeir sögðu bæklinginn hreinan áróður. Cameron vísaði slíkum ásökunum á bug. Hann sagðist ekki biðjast afsökunar á bæklingum, Bretar yrðu að vita hver afstaða stjónvalda væri.

Samkvæmt frétt Telegraph í dag hefur orðið mikill viðsnúningur á afstöðu Breta á rúmum mánuði. 15. mars vildu 45 prósent vera áfram, en 52 prósent segja sig úr ESB. 5. apríl voru tölurnar 49 og 48 prósent, en nú vilja 52 prósent vera áfram í Evrópusambandinu, en 43 prósent fara.

Ef til vill hefur bæklingurinn haft þarna áhrif og ef til vill útreikningar fjármálaráðuneytisins sem spá því að árið 2030 yrði hvert heimili fátækara sem næmi rúmlega 750 þúsund krónum ef Bretar ákveða að segja sig úr ESB.

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, segir þessa útreiknga sýna svo ekk verði um villst að óráð væri að segja skilið við ESB. Úrsagnarsinnar hafna þessum útreikningum, segja þvert á móti að gríðarháar upphæðir, sem Bretar greiða nú til ESB, myndu sparast. Chris Carter hjá samtökum sem berjast fyrir úrsögn Breta segir að vikulega sendi Bretar 62 milljarða íslenskra króna til Brussel og þetta fé geti þeir notað heima fyrir til að byggja sjúkrahús og annað.