Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Meirihluti andvígur afturköllun umsóknar

02.04.2015 - 19:03
Meirihluti landsmanna er andvígur því að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu verði dregin til baka, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallúps.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti Evrópusambandinu með bréfi 12. mars að ríkisstjórnin líti svo á að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu. Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar var ekki borin undir Alþingi.

Nærri þrír af hverjum fjórum landsmönnum segjast þó í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallúps telja að ríkisstjórnin hefði átt að ræða við Alþingi áður.

Hart hefur verið deilt á ríkisstjórnina vegna þessarar ákvörðunnar. Um 39 prósent þeirra sem taka afstöðu í könnun Gallúps segjast hlynntir því að draga til baka umsókn Íslands að ESB. 51 prósent sögðust hins vegar vera andvíg því. Einn af hverjum tíu segist hvorki hlynntur né andvígur.

Stuðningsmenn stjórnarflokka sáttir en stjórnarandstæðingar ekki
88 prósent kjósenda Framsóknarflokksins segjast hlynnt því að draga umsóknina til baka, en 76 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna eru hins vegar á öðru máli. Aðeins sex prósent kjósenda Samfylkingar vilja draga umsóknina til baka. Hjá kjósendum annara flokka á Alþingi er hlutfallið 14 til 19 prósent.

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnana. Um 65 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslu en 24 prósent sögðust andvíg. 12 prósent sögðust hvorki hlynnt né andvíg.

Ísland ekki lengur umsóknarríki
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telur engan vafa leika á því að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu. Hann hyggst ekki beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að sambandinu. Fréttastofa ræddi við hann áður en niðurstöður könnunarinnar lágu fyrir.

Ísland er enn formlega umsóknarríki að Evrópusambandinu. Forsætisráðherra segir hins vegar að bréf utanríkisráðherra til sambandsins, sé bæði afdráttarlaust og skýrt. „Með þessu bréfi þá er Ísland ekki lengur umsóknarríki en eflaust mun Evrópusambandið taka því vel langi Íslendinga einhverntíman í framtíðnni að sækja um aðild.“

Sigmundur Davíð segir að nú verði haldið áfram góðu samstarfi við Evrópusambandið á nýjum grunni. „Ég fékk að heyra það strax sumarið 2013 að það væri ekki hægt að svara óskum Íslendinga um að auka samstarf við ESB á ýmsum sviðum á nýjum grunni fyrr en við erum búin að kveða úr um hvað við ætluðum okkur með þessa umsókn, nú þegar það liggur fyrir þá er ekkert til fyrirstöðu að halda áfram góðu samstarfi við ríki ESB.“

Forsætisráðherra beitir sér ekki fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu
Hann segist alltaf hafa gert ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldinn en um hvort landsmenn vildu ganga í ESB. En ætlar hann að beita sér fyrir slíkri atkvæðagreiðslu? „Ég myndi forgagnsraða málum þannig að og myndi frekar vilja sjá atkvæðagreiðslu um aðra hluti áður, enda finnst mér svarið við þessari spurningu býsna borðliggjandi eins og sakir standa. Það er ekki mikið fyrir okkur að sækja í Evrópusambandið akkúrat núna.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV