Meirihluti æsku heimsins hreyfir sig ekki nóg

22.11.2019 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Heilsa milljóna barna og unglinga víðs vegar um heiminn er í hættu vegna þess að þau hreyfa sig ekki nóg. Of miklar kyrrsetur hafa áhrif á þroska heilans, ekki síður en líkamsburði, samkvæmt viðamikilli könnun sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin kynnti í dag.

Könnunin náði til skólapilta og -stúlkna á aldrinum ellefu til sautján ára í 146 löndum á árunum 2001 til 2016. Hún leiðir í ljós að fjögur af hverjum fimm fá ekki næga daglega hreyfingu. Ástandið er verra meðal stúlkna en pilta í öllum nema fjórum löndum sem könnunin náði til.

Með ónógri hreyfingu stofna börnin og unglingarnir heilsu sinni í hættu, jafnt til skamms sem langs tíma. Mælt er með því að þau hreyfi sig rösklega í eina klukkustund á dag. Með því styrki þau hjarta og lungu, vöðva og bein, bæti andlega og líkamlega líðan og haldi líkamsþyngdinni í skefjum.

Haft er eftir sérfræðingi hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni að stundi fólk næga hreyfingu á unga aldri auki það líkurnar á góðri líðan á fullorðinsárum. Til dæmis minnki líkurnar á hjartaáfalli, heilablæðingu og sykursýki tvö, svo dæmi séu tekin.

Rannsóknin leiðir í ljós að hreyfingarleysi barna og unglinga stafar almennt ekki af leti, heldur vanrækja hinir fullorðnu að hvetja þau til að hreyfa sig meira. Sú staðreynd á við hvar sem er í heiminum, meðal ríkra þjóða jafnt sem fátækra.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi