Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Meirihluti á móti áfengissölu í matvörubúðum

24.02.2017 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Stór hluti Íslendinga er andvígur því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum á Íslandi, samkvæmt nýrri könnun MMR. Alls kváðust rúm 74 prósent vera andvíg sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum og tæp 57 prósent andvíg sölu á léttu áfengi og bjór.

Fyrsta umræða um frumvarp um breytingu á lögum um smásölu áfengis fór fram á Alþingi í gær. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þingmenn ræða frumvarp sem oft er kallað „vín í búðir“ og sem fyrr er það afar umdeilt, þvert á flokka. Flutningsmenn eru níu úr fjórum flokkum og leggja til að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis verði lagt af og smásalan verði frjáls að ákveðnu marki. 

Í könnun MMR reyndust einungis rúm fimmtán prósent hlynnt sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum en tæp 33 prósent hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór. Niðurstöðurnar eru sambærilegar og í könnun sem Zenter rannsóknir gerðu nýverið. Þar sögðust 61,5 prósent þátttakenda vera á móti frumvarpinu, tæp 23 prósent sögðust vera hlynnt því og tæp 16 prósent sögðust hvorki hlynnt því né mótfallin.

Hærra hlutfall kvenna en karla kváðust andvígar sölu áfengis í matvöruverslunum í könnun MMR og andstaða við sölu áfengis í matvöruverslunum jókst með auknum aldri. 

Nánast allur rekstrarhagnaður ÁTVR er greiddur beint í ríkissjóð.  Í nýjustu ársskýrslu ÁTVR kemur fram að hagnaður síðustu sex ára nemi um 7,7 milljörðum króna, þar af hafi um 7,1 milljarður verið greiddur í ríkissjóð. 

 

Könnun MMR var gerð dagana 10. – 15. febrúar og var heildarfjöldi svarenda 908 einstaklingar, 18 ára og eldri. 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV