Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meiri stuðningur stjórnarliða við orkupakkann

24.06.2019 - 15:04
Mótmæli vegna þriðja orkupakkans
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Nærri helmingur landsmanna er andvígur innleiðingu þriðja orkupakkans en rúmlega þriðjungur er honum fylgjandi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. Stuðningur við innleiðingu pakkans hefur aukist meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar og andstaða við hana minnkað meðal stuðningsmanna Miðflokksins, þrátt fyrir að þingmenn flokksins hafi haldið uppi miklu málþófi gegn framgangi málsins.

Samkvæmt nýju skoðanakönnuninni eru 46 prósent landsmanna andvíg innleiðingu þriðja orkupakkans en 34 prósent fylgjandi. Í síðustu könnun, fyrir mánuði, voru fimmtíu prósent andvíg innleiðingunni en 30 prósent fylgjandi.

Fólk á landsbyggðinni er andvígara innleiðingu þriðja orkupakkans en fólk á höfuðborgarsvæðinu. 54 prósent landsbyggðarfólks er andvígt pakkanum á móti 42 prósentum á höfuðborgarsvæðinu. 40 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins eru hlynnt innleiðingunni en 23 prósent á landsbyggðinni.

Stuðningur við innleiðingu orkupakkans jókst hjá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, úr 31 prósenti í 39 prósent. 38 prósent stjórnarliða eru andvíg innleiðingunni. Munurinn er því innan skekkjumarka. Ef hins vegar er litið til stuðningsmanna stjórnarflokkanna kemur út að 35 prósent eru hlynnt innleiðingu en 42 prósent andvíg. Fyrir mánuði voru 26 prósent stuðningsmanna stjórnarflokkanna hlynnt innleiðingu.

53 prósent stuðningsmanna stjórnarandstöðuflokka eru andvíg innleiðingu en 31 prósent hlynnt. 66 prósent þeirra sem styðja Miðflokkinn og Flokk fólksins eru andvíg innleiðingu en 64 prósent stuðningsmanna Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata eru henni fylgjandi.

Elstu svarendur voru helst fylgjandi innleiðingu orkupakkans en næsti aldursflokkur fyrir neðan er honum andvígastur.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV