Aukin notkun snjallsíma og spjaldtölva undanfarin ár hefur vart farið fram hjá neinum. Á sama tíma hefur velta hjá bókaútgáfum hér á landi minnkað. Frá árinu 2008 hefur hún minnkað um 31 prósent, sé tekið mið af verðbólgu.
Snjalltækin hafa áhrif
Hver Íslendingur keypti að meðaltali 8 bækur á ári árið 2010. Í fyrra var hlutfallið komið í 4,2 bækur. Á sama tíma hefur gagnamagnsnotkun 19 faldast. Sylvía Kristín Ólafsdóttir, fyrrum vöruþróunarstjóri Kindle hjá Amazon, segir ljóst að snjalltækjavæðingin hafi áhrif á það hvernig fólk ver tíma sínum. „Ætli það sé ekki einna helst að nú er samkeppni um afþreyingu fólks orðin meiri. Það er ekki bara hver er jólabókin í ár, heldur er fólk líka að tala um kvikmyndaþætti og slíkt og þróunin er orðin örari þar. Netflix og aðrir hafa komið inn. Þessi snjalltækjavæðing, hún hefur vissulega áhrif á það hvernig fólk er að verja tíma sínum,“
Brýnt að huga að nýsköpun
Sala á bókum hefur víðar verið á undanhaldi en hér á landi. Sylvía segir að í Bandaríkjunum og Bretlandi hafi sala bóka tekið kipp á milli áranna 2015 og 2016 en að helsti drifkrafturinn þar að baki hafi verið aukin sala á litabókum fyrir fullorðna. Hún segir mikilvægt að bókaútgefendur skoði möguleika á nýsköpun. „Það er kannski bókaformið, það er alveg hugsanlegt að nú sé fólk orðið vanara samfélagsmiðlum og að fá efni og lesefni með öðrum hætti en hefur áður tíðkast. Þá er mikilvægt að bókaútgefendur og aðrir skoði möguleika í nýsköpun og reyni að aðlagast og búa til nýjar lausnir til að nálgast lesendur.“
Sylvía bendir á að starfræktir séu nýsköpunarhraðlar fyrir kvikmyndir og tónlist en að minna sé um slíkt í bókmenntum. „Disney er með hraðal fyrir kvikmyndir og Red Bull er með nýsköpunarhraðla fyrir tónlist. Bókamenntaútgefendur úti í heimi eru ekki með jafn mikla nýsköpun í gangi.“ Hún bendir á að margir segi að bókin verði alltaf til staðar og að lestur auki samkennd meðal fólks.
Keppa um tíma fólks
Þá hafi verðlag einnig áhrif, að sögn Sylvíu. Áskriftarþjónustur keppi um tíma fólks og til dæmis tölvuleikir og ýmis önnur afþreying er ódýrari en bækur. Verðið hafi þó helst áhrif þegar fólk sé leita að einhverri bók af ákveðinni tegund, til dæmis glæpasögum. Ætli fólk sér að lesa sígilda bók þá skipti verðið minna máli. „Ég sá það hjá Amazon að þegar það voru góðir afslættir, þá hafði það mikið að segja um söluna.“
Hún segir að hjá Amazon sé reynslan sú að nýjungar fyrir neytendur auki lestur. „Þeir hópar sem lásu mikið, þeir lásu enn meira þegar nýjungar eins og þægilegra viðmót voru kynntar til sögunnar.“