Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meiri og hraðari fjölgun á rafbílum en áður

02.03.2020 - 10:41
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Rafknúnum fólksbílum fjölgar hratt með auknum ívilnunum og úrvali. Hægt er að hlaða rafbíl í helstu þéttbýlisstöðum, en rafbílavæðingin er þó enn sem komið er langmest bundin við einkabílinn.

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er meðal annars stefnt að því að hækka til muna hlutfall rafbíla og annarra vistvænna ökutækja hér á landi. Þeir verði að minnsta kosti um 100.000 árið 2030.

Fjölgunin meiri og hraðari en áður

Þarna er vissulega enn langt í land og þróunin hefur verið hæg fram að þessu. „En núna eru að verða alger vatnaskil greinilega með tölfræðina og við erum að vonast til að þetta fari að gerast á miklu meiri hraða en verið hefur áður,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Nánast jafnmargir rafbílar og díselbílar skráðir í janúar

Nýskráningar rafbíla hér á landi hafa aldrei verið jafn margar og í janúar. Þá var 151 rafbíll skráður. Þá er athyglisvert að þennan fyrsta mánuð ársins eru nýskráðir rafbílar nokkurn veginn jafnmargir og nýskráðir díselbílar. Ef þróun síðustu fimm ára er skoðuð, sést að rafbílum og tengiltvinnbílum hefur fjölgað jafnt og þétt. Í dag er hlutfall þessara bíla um 40 prósent af öllum nýjum fólksbílum. Og þetta er á kostnað bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Auknar ívilnanir og sífellt aukið úrval rafbíla

Sigurður segir margt valda því að rafbílar seljist betur en áður. Ýmiss konar afsláttur bjóðist nú við kaup á rafbílum og búnaði og aðstaða til að hlaða bílinn batni stöðugt. „En ytri aðstæður skipta líka máli og jafnvel meira að núna er loksins úrval rafbíla orðið nægt en það er mjög mikilvægt. Þó að fólk vilji skipta yfir í íslenska og innlenda orku þá hefur það miklar sérþarfir þegar kemur að bílum.“ Undir þetta tekur Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltúi Samorku. „Það eru að koma stærri bílar þannig að þú kemur börnunum kannski betur fyrir í bílnum, og smærri bílar fyrir yngra fólkið, við erum að sjá bíla með meiri drægni,“ segir hún.

Góð aðstaða til hleðslu í helstu þéttbýliskjörnum

Samorka hefur í nærri tvö ár rannsakað innviði og aðstæður til að hlaða rafbíla og hvar þurfi helst að bæta úr. Þegar skoðað var hvar og hvenær fólk hleður bílinn, kom í ljós að langflestir hlaða við heimahús. Það eru helst þeir sem búa í fjölbýli sem nýta sér aðstöðu til þess á vinnustöðum. Hleðslustöðvum við fjölbýlishús fari samt fjölgandi í kjölfar þess að farið var að endurgreiða virðisaukaskatt við kaup á hleðslustöðvum við íbúðarhús. „Við sjáum að aðstaðan er tiltölulega góð á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega. En það eru kannski svæði úti á landi sem mætti byggja betur upp hvað varðar rafbílainnviði. En höfuðborgarsvæðið og helstu þéttbýliskjarnar virðast vera í góðu standi til að taka við þessarri þróun,“ segir Lovísa.

Rafbílavæðingin þyrfti að gerast enn hraðar

Og á þessum stöðum geti rafbílaeigandinn nú hlaðið bílinn sinn hindrunarlaust þar sem honum hentar, miðað við núverandi fjölda bíla. „Svo verðum við aðeins að skoða málið þegar rafbílavæðingin fer af stað fyrir alvöru, sem hún verður náttúrulega að gera. Við verðum að fara ennþá hraðar í þetta ef við ætlum að standast Parísarsamninginn og þau markmið sem við höfum sett okkur þar,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Langdrægir rafbílar í boði fyrst núna

Skortur á hleðslustöðvum við flugstöð Leifs Eiríkssonar, fjölfarna ferðamannastaði og á gististöðum út um landið á einmitt stóran þátt í að bílaleigur hafa almennt ekki fjárfest í rafbílum. Þá hafa ekki fyrr en nú verið til bílar sem henta til útleigu. „Núna er alltaf að fjölga og fjölga þeim bílum sem eru komnir með drægni þetta 250 plús, kílómetra, allt upp í 350-400. Þetta var bara ekki til staðar fyrir nokkrum árum,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigur Akureyrar.

Bílaleigurnar fari í þetta eins hratt og hægt er

Og það sé vilji hjá bílaleigunum að leggja sitt af mörkum hvað þetta varðar. „En fyrst og fremst eru þetta bara innviðirnir sem hefur bjátað á og í þessu tilfelli þá kemur eggið ekki á undan hænunni, það er nú bara þannig. Þannig að við förum í þetta eins hratt og við mögulega getum,“ segir hann. „Það er okkur enginn hagur í því að vera að þrjóskast eitthvað við og vera bara með bensín eða dísilbíla.“

Samfélagskrafa um að fyrirtækin taki þátt

„Þessar lausnir eru mest í fólksbílum. Og svo fylgja kannski í kjölfarið lausnir í stærri bílum,“ segir Sigurður. „Fyrirtæki eru að koma inn og ég held að það sé bara samfélagskrafa um að fyrirtækin taki þátt í þessu. Þú vilt versla við fyrirtæki sem er meðvitað umhverfislega.“