Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er meðal annars stefnt að því að hækka til muna hlutfall rafbíla og annarra vistvænna ökutækja hér á landi. Þeir verði að minnsta kosti um 100.000 árið 2030.
Fjölgunin meiri og hraðari en áður
Þarna er vissulega enn langt í land og þróunin hefur verið hæg fram að þessu. „En núna eru að verða alger vatnaskil greinilega með tölfræðina og við erum að vonast til að þetta fari að gerast á miklu meiri hraða en verið hefur áður,“ segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs.
Nánast jafnmargir rafbílar og díselbílar skráðir í janúar
Nýskráningar rafbíla hér á landi hafa aldrei verið jafn margar og í janúar. Þá var 151 rafbíll skráður. Þá er athyglisvert að þennan fyrsta mánuð ársins eru nýskráðir rafbílar nokkurn veginn jafnmargir og nýskráðir díselbílar. Ef þróun síðustu fimm ára er skoðuð, sést að rafbílum og tengiltvinnbílum hefur fjölgað jafnt og þétt. Í dag er hlutfall þessara bíla um 40 prósent af öllum nýjum fólksbílum. Og þetta er á kostnað bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.