Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meiri kröfur til nýrra virkjana innan hálendisþjóðgarðs

18.01.2020 - 19:31
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Strangari kröfur verða gerðar til nýrra virkjana á hálendinu með tilkomu Hálendisþjóðgarðs. Umhverfisráðherra vonast til að frumvarp verði samþykkt á vorþingi en efasemdaraddir heyrast innan stjórnarinnar.

Hálendisþjóðgarður var kynntur höfuðborgarbúum í dag en kynningarferð umhverfisráðherra um landið hefur gengið hægt vegna veðurs. Mikill hiti var í fundargestum bæði fyrir norðan og sunnan en í borginni var þeim ekki mjög heitt í hamsi, en þar var náttúruvernd í fyrirrúmi. Snorri Ingimarsson, fulltrúi SAMÚT, samtaka útivistarfólks, í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs, segir að ferlið hafi verið langt og samráðið mikið, en það ætti að gefa sér lengri tíma í þessa vinnu. „Svo finnst okkur dálítið sorglegt útivistarfólki að aðaldrifkrafturinn fyrir stofnun á þjóðgarði sé að koma í veg fyrir virkjanir. Þetta er eins og að þeir sem eru á móti virkjunum vilji láta færa sér þjóðgarð sem vald í þeirri baráttu en við teljum að þjóðgarð eigi að stofna á forsendum þjóðgarðs, og þá helst þjóðgarðsins okkar, þjóðarinnar,“ segir Snorri.

Margir þurfi að koma að verkefninu

Svipaðra spurninga var spurt á fjölmennum kynningarfundum bæði á Hvolsvelli og í Bláskógabyggð og hvort þjóðin ætti ekki að vera spurð að því hvort hún vildi þjóðgarð á hálendinu. Þar og víðar um land eru einnig áhyggjur af því að íbúar og sveitarfélög missi yfirráða- og skipulagsrétt yfir landi. „Í dag er þetta þannig að á þjóðlendunum sem að við erum að leggja þarna til að verði þjóðgarður, þar fara með í rauninni yfirráðaréttinn sveitarfélög og ríkið í sameiningu og þannig verður það í rauninni áfram. Við erum að byggja upp stjórnkerfi þar sem bæði fólk í héruðunum sem eiga land að þessu svæði, útivistarsamtök, náttúruverndarsamtök, ferðaþjónusta og bændur koma að því að skipuleggja og gera áætlanir fyrir þessi svæði, þannig að þetta er mjög dreifstýrt fyrirkomulag þar sem margir koma að og hefur gefist ágætlega í Vatnajökulsþjóðgarði. Það er lýðræðislegt og ég held að það sé mjög mikilvægt til þess að fá meiri sátt um náttúruverndina og þau miklu og stóru verkefni sem þarna bíða, það að reka stærsta þjóðgarð í Evrópu er vissulega stórt verkefni og að því þurfa margir að koma,“ segir Guðmundur Ingi.  

Reynt að ná sátt um virkjanir á hálendinu

Gert er ráð fyrir að nýjar virkjunarhugmyndir verði ekki teknar til skoðunar og starfsmenn Landsvirkjunar veltu því upp á fundinum í dag hvort að frumvarpið komi í veg fyrir uppbyggingu við virkjanir sem fyrir eru. Guðmundur Ingi segir að þær leikreglur, sem hafa verið í gildi með til dæmis rammaáætlun, verði settar í samhengi við það að vera komin með þjóðgarð. „Það þýðir óneitanlega það að það þarf að gera frekari kröfur þegar verið er að skoða nýjar virkjanir inni á hálendinu. Kröfur eins og það að þú ert innan þjóðgarðs, ert á röskuðu eða óröskuðu svæði og þar með að reyna að ná einhverri sátt og línu um þessi mál sem við Íslendingar höfum verið að deila um í mjög langan tíma.“ 

Efasemdarraddir innan stjórnarinnar

Frumvarpið byggir á vinnu þverpólitískrar nefndar en Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, skrifaði ekki undir skýrsluna sem hún skilaði. Þá hafa heyrst efasemdarraddir um hálendisþjóðgarð innan Sjálfstæðisflokksins en þar þykir ýmislegt í frumvarpinu of óljóst. Það verður lagt fyrir á vorþingi og Guðmundur Ingi er bjartsýnn á að það fari í gegnum þingið í vor. „Fólki þykir vænt um þetta svæði og við þurfum að taka utan um það og reyna að gera þetta með þeim hætti að þetta verði stóra náttúruverndarverkefnið okkar á Íslandi sem býr til stærsta þjóðgarð í Evrópu og við getum verið virkilega stolt af.“ Hann segir að hálendisþjóðgarður sé í stjórnarsáttmálanum og á von á því að frumvarpið verði samþykkt. „En þá tekur við annað verkefni og það er að gera áætlanir sem þarf að gera fyrir þetta stóra verkefni þannig að við erum hvergi nærri búin þegar við erum búin að afgreiða þetta frá Alþingi,“ segir Guðmundur Ingi.