„Það sem kemur út úr minni rannsókn er það að stjórnmálaflokkar og flokkakerfi spila mikilvæg hlutverk í að búa til traust. Þeir einstaklingar sem tengja sig við stjórnmálaflokk, hvort sem þeir eru skráðir í hann eða finnst að þarna sé flokkur sem er framlenging á þeirra hugmyndum og skoðunum, eru líklegri til að treysta heldur en þeir sem tengja sig ekki við stjórnmálaflokka. Þetta er þessi hugsun, að ef þú tengir þig við stjórnmálaflokka þá ertu hluti af þessu pólitíska kerfi, umræðu og ákvarðanatöku,“ sagði Sjöfn á Morgunvaktinni á Rás Eitt í morgun.
Hún segir að það sem skapi traust almennings til stjórnvalda og stjórnmála sé til dæmis árangur stjórnvalda til þess að skapa góð lífskjör með sterku efnahagslífi, félagslegri velferð og jöfnuði í friðsælu samfélagi. Ísland komi ávallt vel út úr þeim þáttum í alþjóðlegum samanburði, og því ætti traustið á stjórnvöldum í raun að vera meira.