Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Meiri kröfur almennings bitna á trausti til stjórnvalda

Mynd: Arnhildur Hálfdánard / Arnhildur Hálfdánard
Traust íslenskra kvenna til stjórnvalda og stjórnmála er mun meira en traust íslenskra karla. Rannsókn Sjafnar Vilhelmsdóttur, nýdoktors í stjórnmálafræði, bendir til þess að kjósendur geri meiri kröfur til stjórnmálamanna í dag en var fyrir hrun þegar einnig var algengara að kjósendur tengdu sterkt við ákveðinn stjórnmálaflokk.

„Það sem kemur út úr minni rannsókn er það að stjórnmálaflokkar og flokkakerfi spila mikilvæg hlutverk í að búa til traust. Þeir einstaklingar sem tengja sig við stjórnmálaflokk, hvort sem þeir eru skráðir í hann eða finnst að þarna sé flokkur sem er framlenging á þeirra hugmyndum og skoðunum, eru líklegri til að treysta heldur en þeir sem tengja sig ekki við stjórnmálaflokka. Þetta er þessi hugsun, að ef þú tengir þig við stjórnmálaflokka þá ertu hluti af þessu pólitíska kerfi, umræðu og ákvarðanatöku,“ sagði Sjöfn á Morgunvaktinni á Rás Eitt í morgun. 

Hún segir að það sem skapi traust almennings til stjórnvalda og stjórnmála sé til dæmis árangur stjórnvalda til þess að skapa góð lífskjör með sterku efnahagslífi, félagslegri velferð og jöfnuði í friðsælu samfélagi. Ísland komi ávallt vel út úr þeim þáttum í alþjóðlegum samanburði, og því ætti traustið á stjórnvöldum í raun að vera meira.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Ólafsson - RÚV
Frá mótmælum á Austurvelli í kjölfar efnahagshrunsins.

Traustið hrundi eftir hrun

Sjöfn segir að samkvæmt tölum hafi traust á Íslandi mælst mjög hátt gagnvart Alþingi, opinberum stofnunum, lögreglu og dómskerfinu allt frá fyrstu mælingum árið 1983. Þannig hafi það verið alveg til ársins 2008.

„Það sem breytist 2008 er að traust einstaklinga á opinberum stofnunum jókst, traust á lögreglu jókst en traust á dómskerfinu hélt áfram að flökta. Það féll ekki, en hins vegar féll traust okkar á Alþingi. Þetta er eitthvað sem líka má sjá í gögnum frá Írlandi, Portúgal og Spáni sem eru öll ríki sem fóru sömu leið og við,“ segir Sjöfn. Þar sem traustið var hærra hér en þar gerði það hins vegar að verkum að fallið var hærra.

Fyrir hrun hafði það mikið forspárgildi um traust að tengja  við stjórnmálaflokka sem voru í ríkisstjórn, að vera í „vinningsliðinu.“ Það hvarf hins vegar eftir hrun vegna uppbrots í pólitíkinni þegar fasta fylgið brotnaði upp. Það sem kjósendur kusu árið 2009 var kannski alveg andstaðan við það sem þeir svo kusu þremur árum síðar.

„Stóra niðurstaðan í þessari rannsókn er hvernig þessi þáttur, að tengja þig við stjórnmálaflokk í ríkisstjórn, hverfur í uppbrotinu. Traustið hefur verið að aukast aftur aðeins, en engan veginn eins og það var áður,“ segir Sjöfn.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Auknar kröfur koma ekki niður á lýðræðislegri þátttöku.

Íslenskar konur treysta mun meira en karlar

Sjöfn segir að með aukinni menntun þjóðarinnar hafi fólk orðið gagnrýnna. Kröfurnar eru orðnar mun meiri. Það hefur ekki komið niður á lýðræðislegri þátttöku, en stjórnvöld þurfa að hafa meira fyrir því að vinna sér inn traust. Þegar horft er til bakgrunnsþátta hefur vægi þeirra ekki aukist, en menntun og tekjur hafa minna vægi en aldur og kyn.

„Íslenskar konur treysta mun meira en íslenskir menn. Þetta fannst öðrum andmælanda mínum mjög merkilegt. Það er ekkert í fræðunum sem segir að konur treysti meira heldur en karlar,“ sagði Sjöfn og talar um að þar sé komið borðliggjandi rannsóknarefni. Einnig komi í ljós að það er yngsti og elsti aldurshópurinn sem treystir meira en fólk á miðjum aldri.

Starfshópur sem var skipaður um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu lagði meðal annars til að bæta siðferði og auka gagnsæi, til dæmis með hagsmunaskráningu stjórnmálamanna. 

„Þetta er algjörlega mikilvægur þáttur, en bara einn af mörgum. Við komum vel út í efnahagsmálum, stöðu kynjanna og félagslegum jöfnuði. En kannski þarf að vanda sig svolítið í stjórnmálunum,“ sagði Sjöfn Vilhelmsdóttir, nýdoktor í stjórnmálafræði, á Morgunvaktinni á Rás Eitt.