Meira en 70% vega í Dalabyggð eru malarvegir

19.04.2016 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Meira en 70% vega í Dalabyggð eru malarvegir og engin áform um umbætur þrátt fyrir aukna umferð ferðamanna. Þarna hafa menn sofið á verðinum segir sveitarstjóri Dalabyggðar.

Mikill fjöldi ferðamanna

Umferð um Vesturland hefur undanfarin ár aukist mikið árið um kring og Snæfellsnes er vinsæll áfangastaður. Sveinn Pálsson, sveitarstjóri í Dalabyggð, segir að margir ferðamenn aki hringleið um Snæfellsnes til að fara ekki sömu leið fram og til baka. Þá liggur leiðin um Skógarströnd, austur frá Stykkishólmi sem þykir falleg en þar er malarvegur með einbreiðum brúm og blindhæðum. „Þetta er stórhættuleg leið. Og maður skilur ekki að hún eigi sér ekki stað í samgönguáætlunum. Það er ekki stafkrókur um framkvæmdir á þessum malarvegum í Dalabyggð,“ segir Sveinn.

Sofið á verðinum

74% vega í Dalabyggð og segir Sveinn einungis þrjú önnur sveitarfélög vera með hærra hlutfall malarvega. Sveinn segir að staðan sé ekki góð núna og hann hefur áhyggjur af að í tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samönguáætlun 2015 til 2018 sé ekki gert ráð fyrir neinum endurbótum eða uppbyggingu á vegum í Dalabyggð. Hann segir ljóst að þörf sé á breytingum og bótum: „Til að bæði íbúar og ferðamenn komist sæmilega öruggt um landið og vegina. Þarna hafa menn sofið á verðinum ótrúlega lengi.“

Vill breyta því sem hægt er

Theódór Þórðarson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi segir ljóst að umferð erlendra ferðamanna hefur aukis mikið, sérstaklega yfir vetrartímann, oft ferðamenn á eigin bílaleigubílum. Hann segir ljóst að margir ferðamenn eru ekki öryggir á malarvegunum og að þeir hafi tilhneygingu til að halda á vegi sem að Íslendingar hafi ekki tilhneygingu til að aka. Því fái lögreglan ekki einungis útköll til að losa bíla sem eru fastir í snjó heldur einnig til að losa bíla sem eru fastir í aurbleytu. Theódór finnst mikilvægt að breyta því sem hægt er að breyta í ljósi aðstæðna. Það felist í því að merkja betur þá vegi sem eru. Ástand þeirra, hættustaði og hvers kyns frávik. Malarvegir geti verið mjög góðir vegir en á þeim geta líka myndast þvottabretti og holur sem ber þá að merkja þar til unnt er að laga þá.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi