Meira en 60 milljarðar þurrkast úr Kauphöll

21.09.2017 - 21:37
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þ'ór Víglundsson - RÚV
Tugir milljarða hafa þurrkast út úr Kauphöll Íslands síðustu daga. Forstjóri Kauphallarinnar rekur lækkanirnar til stjórnarslitanna og þeirrar óvissu sem nú blasi við í framhaldinu. Erlendir fjárfestar vilji síður skoða þá möguleika sem hér séu í boði. Það sé dapurlegt að svartsýni á mörkuðum hafi aukist þar sem allir  mælikvarðar séu ákjósanlegir og í raun öfundsverðir.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands segir að mikil lækkun hafi orðið á verðbréfum í Kauphöllinni strax á föstudagsmorguninn í síðustu viku þegar stjórnarslitin lágu fyrir.  

„Markaðsaðilar tóku illa í tíðindin. Svo hefur þetta líka verið niðurá við í þessari viku. Þetta hefur verð um 6% lækkun að meðaltali frá því að uppúr slitnaði.  Við erum að tala um rúmlega 60 milljarða á hlutabréfamarkaði sem hafa þurrkast út. Svo hefur líka orðið lækkun á skuldabréfamarkaði. Hún hefur ekki verið eins mikil en við erum að verða vör við aukna svartsýni.“

Krafan sem fjárfestar geri til íslenskra ríkisskuldabréfa hafi hækkað, sér í lagi til óverðtryggðra bréfa. Í því felist væntingar um aukna verðbólgu. 

Verð allra hlutabréfa hefur lækkað að undanskildum bréfum Sláturfélagsins en engin viðskipti hafa verið með þau bréf. Verðlækkunin er á bilinu 3,0% til 12,7%. 

„Mörkuðum er alltaf illa við óvissu og það er stór hluti af skýringunni. Ég gæti líka trúað því að markaðsaðilar óttist að þessi óvissa geti varað um nokkurt skeið. Jafnvel þó kosningar séu eftir tiltölulega skamman tíma þá leysa þær ekkert endilega úr þeirri óvissu sem er til staðar. Það gæti reynst erfitt að mynda stjórn eftir kosningarnar.“

Öll áætlanagerð fyrirtækja sé í uppnámi. Þá sé hætta á að umfjöllun um stjórnarslitin hjá erlendum fréttamiðlum leiði til þess að erlendir fjárfestar missi áhugan á fjárfestingum hér á landi. Erlendum fjárfestum á íslenskum hlutabréfamarkaði hefur fjölgað mikið að undanförnum misserum. Því sé dapurleg staðreynd að þeim fækki vegna þessa, þar sem efnahagslegar aðstæður hér á landi séu eins og best verður á kosið, nánast hvert sem litið er, og ættu ef allt væri með felldu að vera mjög ákjósanlegar fyrir erlenda fjárfesta.

„Það má eiginlega segja að allir mælikvarðar séu jákvæðir og í hæstu gildum um margra áratuga skeið. Þannig að vissulega er þetta súrt að við skulum svona að  minnsta kosti að einhverju leyti kalla þetta yfir okkur sjálf.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV