Meira en 250.000 hafa greinst smitaðir í Evrópu

26.03.2020 - 12:08
epa08322434 People checked for temperature at Milan Central Station during the COVID-19 Coronavirus emergency lockdown in Milan, Italy, 25 March 2020.  EPA-EFE/MOURAD BALTI TOUATI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Samkvæmt samantekt fréttastofunnar AFP hafa meira en 250.000 greinst með kórónuveiruna í Evrópu. Hátt í 15.000 hafa dáið af völdum hennar. Ástandið er verst á Ítalíu þar sem hátt í 75.000 hafa greinst smitaðir, en meira en 7.500 hafa dáið úr COVID-19 sjúkdómnum.

Á Spáni dóu 655 síðasta sólarhring og hafa þar nærri 4.100 látist. Staðfest smit á Spáni eru rúmlega 56.000. Í Frakklandi hafa meira en 25.000 greinst smitaðir, en ríflega 1.300 hafa látist. Rúm fimmtán hundruð greinst með smit í Bretlandi síðasta sólarhring, en þar eru 465 látnir.

Robert Koch-smitsjúkdómastofnunin í Þýskalandi greindi frá því í morgun að nærri fimm þúsund manns hefðu greinst þar smitaðir síðasta sólarhring og hátt í 37.000 síðan veiran barst til landsins. Fimmtíu hefðu látist úr COVID-19 í gær og hefðu því 198 látist úr sjúkdómnum. Þjóðverjar boða aukna sýnatöku í vikunni, gert sé ráð fyrir að taka sýni úr allt að hálfri milljón manna á viku.

Evrópuþingið hefur í morgun rætt áætlun um fjárhagslegan stuðning við aðildarríki Evrópusambandsins í viðleitni þeirra til að hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins. Tillögurnar hljóða upp á 37 milljarða evra, jafnvirði um 5.700 milljarða króna. 

Þingfundi var flýtt vegna kórónuveirufaraldursins og undanþága veitt svo þingfulltrúar gætu greitt akvæði fjarverandi, enda voru fáir í þingsal í morgun.

Auk fyrrnefndra tillagna voru til umræðu aukin framlög í neyðarsjóð til heilbrigðismála og tillaga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að stöðva svokölluð draugaflug flugfélaga til að tryggja sér áfram pláss á flugvöllum.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins kemur svo saman seinnipartinn í gegnum fjarfundarbúað til að leggja blessun sína yfir niðurstöðuna. Auk þess að ræða stöðu mála í baráttunni gegn kórónuveirunni, frekari leiðir til að takmarka útbreiðslu hennar og félagslegar og efnahagslegar afleiðingar faraldursins.

Matsfyrirtækið S&P Global sagðist í morgun gera ráð fyrir því að verg landsframleiðsla drægist saman um tvö prósent á evrusvæðinu og í Bretlandi á þessu ári vegna faraldursins. Það gæti skipt sköpum að bregðast djarflega og skjótt við upp á viðsnúning á næsta ári.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi