Meiðsli og vítaklúður í sigri á Moldóvu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Meiðsli og vítaklúður í sigri á Moldóvu

17.11.2019 - 21:40
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta vann 2-1 sigur á Moldóvu í Kísíná í síðasta leik sínum í undankeppni EM 2020 í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmark leiksins og klúðraði vítaspyrnu.

Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén gerði þrjár breytingar á liði Íslands fyrir leik kvöldsins sem hafði litla þýðingu þar sem Ísland gat ekki farið beint á EM og var með bókað sæti í umspil í mars. Sverrir Ingi Ingason, Arnór Sigurðsson og Mikael Anderson komu inn í liðið fyrir Kára Árnason, Arnór Ingva Traustason og Alfreð Finnbogason. Mikael var að spila sinn fyrsta keppnisleik í byrjunarliði Íslands.

Leikur liðanna var rólegur í upphafi en Ísland komst í forystu eftir rúmlega stundarfjórðungsleik. Þar var á ferðinni Birkir Bjarnason sem átti þá þríhyrningsspil við Ara Frey Skúlason, annað við Mikael Anderson, áður en hann lék á varnarmann Moldóvu og lagði knöttinn í markið.

Mynd: Mummi Lú / RÚV
Mark Birkis Bjarnasonar.

Birkir komst nálægt því að skora aftur í fyrri hálfleiknum en hann átti skottilraunir bæði í slá og stöng. Eftir tæplega hálftíma leik fór Kolbeinn Sigþórsson meiddur af velli en hann missteig sig þegar hann lenti illa eftir skallaeinvígi. Meiðslin eru vonandi ekki alvarleg en Kolbeinn hefur verið plagaður af meiðslum undanfarin ár.

Viðar Örn Kjartansson kom inn á í hans stað en Viðar fékk upplagt tækifæri til að tvöfalda forystuna skömmu fyrir leikhlé eftir laglega hælsendingu Gylfa Þórs Sigurðssonar til hans en Alexei Coselev sá við honum í marki Moldóvu. Staðan í leikhléi var því 1-0 fyrir Ísland.

Mynd: RÚV / RÚV
Mark Milinceanu fyrir Moldóvu.

Gylfi Þór Sigurðsson fékk dauðafæri til að koma Íslandi í 2-0 snemma í síðari hálfleik eftir góðan undirbúning Jóns Daða Böðvarssonar en varnarmenn Moldóvu hentu sér fyrir skot hans af stuttu færi. Skömmu eftir það, á 55. mínútu, þurfti Mikael Anderson af fara af velli vegna meiðsla á rifbeinum í kjölfar fautabrots Vadims Rata.

Um mínútu eftir að Mikael fór af velli jöfnuðu Moldóvar leikinn. Nicolae Milinceanu var þar að verki er hann skaut í slá og inn af stuttu færi eftir fyrirgjöf Sergio Platica frá vinstri. Platica fékk þá alltof mikinn tíma og pláss á kantinum til að gefa boltann fyrir og miðverðir Íslands klikkuðu á dekkningu á Miliceanu sem var að skora sitt fyrsta mark fyrir landsliðið.

Mynd: Mummi Lú / RÚV
Mark Gylfa Þórs.

Tæplega tíu mínútum eftir mark Moldóvu tókst Íslandi að komast í forystu á ný. Þar var að verki Gylfi Þór Sigurðsson sem lagði boltann þá í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning Viðars Arnar Kjartanssonar og Arnórs Sigurðssonar. Gylfi skoraði þar með annað mark sitt í undankeppninni og sitt tuttugasta og annað fyrir landsliðið.

Á 71. mínútu, sex mínútum eftir mark Gylfa, fékk varamaðurinn Vitalie Damascan háa sendingu inn fyrir sofandi íslenska vörn og var kominn einn gegn Hannesi Þór Halldórssyni markmanni. Skot hans að marki af stuttu færi fór hins vegar í stöng og þaðan aftur fyrir.

Mynd: RÚV / RÚV
Vítaspyrnuklúður Gylfa Þórs.

Sex mínútum eftir dauðafæri Moldóvanna var Arnór Sigurðsson tekinn niður í vítateig Moldóvu og vítaspyrna réttilega dæmd. Gylfi Þór steig á punktinn en lét Alexei Coselev verja frá sér. Staðan var því enn 2-1 fyrir Ísland.

Þar við sat og Ísland vann 2-1 sigur. Liðið lýkur því keppni í þriðja sæti riðilsins með 19 stig, fjórum stigum á eftir Tyrkjum sem unnu 2-0 sigur á Andorra í kvöld. Frakkar lentu í toppsæti riðilsins með 25 stig en þeir unnu sömuleiðis 2-0 sigur á Albaníu.

Frakkland og Tyrkland fara á EM á næsta ári en vonin er ekki úti fyrir Ísland sem fer í umspil um EM-sæti í mars næstkomandi.

Lokastaða H-riðils

1 Frakkland 10 +19 25
2 Tyrkland 10 +15 23
3 Ísland 10 +3 19
4 Albanía 10 +2 13
5 Andorra 10 -17 4
6 Moldóva 10 -22 3