Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mega ekki segjast vera konungborin

19.02.2020 - 11:29
The newly married Duke and Duchess of Sussex, Meghan Markle and Prince Harry, leave Windsor Castle after their wedding in Windsor, England, to attend an evening reception at Frogmore House, hosted by the Prince of Wales, Saturday, May 19, 2018. (Steve
 Mynd: AP Images - RÚV
Harry Bretaprins og Meghan Markle mega ekki nota nafnið Sussex Royal, eða konungsfjölskyldan af Sussex, á nýja góðgerðarstofnun sína. Engin önnur en drottningin sjálf, Elísabet, meinar þeim þetta að sögn breska dagblaðsins Daily Mail.

Hertoginn og hertogaynjan af Sussex hugðust nota nafnið á ýmsan varning, til dæmis fatnað, bækur, ritföng og félagsmálaþjónustu. Eins ætluðu þau að stofna góðgerðarsamtök undir nafninu Sussex Royal, The Foundation of the Duke and Duchess of Sussex. Þau verða hins vegar að láta Royal nafnið frá sér eftir að þau fengu samþykkt að láta af opinberum embættisverkum fyrir konungdæmið.

Daily Mail segir Harry og Meghan hafa eytt tugþúsundum punda í vefsíðu fyrir nýja vörumerkið sitt, Sussex Royal. Instagramsíða þeirra, undir sama vörumerki, er gríðarlega vinsæl, þar sem rúmlega 11 milljónir fylgjast með þeim.

Þau sóttust sömuleiðis eftir því að gera vörumerkið alþjóðlegt. Að sögn Daily Mail samþykktu Elísabet Bretadrottning og hátt settir embættismenn að ekki væri hægt að leyfa þeim að segjast konungleg í vörumerki sínu.

Bandaríska fréttastofan CNN tekur ekki jafn djúpt í árinni, en segist hafa eftir heimildamanni innan konungsfjölskyldunnar að notkun þeirra á orðinu Royal sé í skoðun. Times of London greindi frá því fyrr í mánuðinum að ráðgjafi drottningar hafi varað hertogann og hertogaynjuna við því að bæta Royal við titil sinn eftir að þau viku frá opinberum embættisverkum. 

Þau Harry og Meghan fluttu til Kanada með son sinn Archie eftir að þau tilkynntu um brotthvarf sitt frá bresku krúnunni. Þau lokuðu jafnframt skrifstofu sinni í Buckinghamhöll, þar sem 15 starfsmenn voru við störf. Bæði þurftu þau að afsala sér virðingarheitum sínum, hans og hennar hátign, og Harry missir titla sína í hernum.

Bæði heimasíðan og Instagramsíðan eru enn uppi. Hvenær og hvernig hertogahjónin breyta vörumerki sínu er því enn óljóst.