Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Meðeigandi: Þýski bankinn aldrei eigandi

30.03.2017 - 06:57
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Fyrrverandi meðeigandi í þýska bankanum Hauck & Aufhäuser sagði rannsóknarnefnd Alþingis að bankinn hefði ekki verið raunverulegur eigandi. Til þess hefði þurft samþykki stjórnar sem aldrei hefði verið leitað eftir.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum árið 2003. Helmut Landwehr var meðeigandi og framkvæmdastjóri í þýska bankanum þegar viðskiptin áttu sér stað. Hann undirritaði umboð sem Peter Gatti, annar meðeigandi og framkvæmdastjóri í Hauck & Aufhäuser fékk til að skrifa undir kaupsamning um hlut í Eglu, hluthafasamkomulag og kaupsamning við ríkið.

Hefði þurft að tilkynna yfirvöldum eignina

Landwehr sagði rannsóknarnefndinni að miðað við þær upplýsingar sem kynntar hefðu verið innan bankans á sínum tíma hefði þátttaka Hauck & Aufhäuser takmarkast við vörslu hlutanna fyrir hönd íslenskra aðila. Hann sagði að stjórnin hefði þurft að samþykkja fjárfestingu upp á 35 milljónir dollara og að tilkynna hefði þurft þýskum yfirvöldum um fjárfestinguna. Það hefði ekki verið gert. Miðað við lýsingu Landwehr höfðu meðeigendur þýska bankans umtalsvert sjálfræði með það hvernig þeir stunduðu viðskipti og sköpuðu viðskiptasambönd. 

Flétta í þágu Ólafs Ólafssonar

Rannsóknarnefnd Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum komst að þeirri niðurstöðu að þýski bankinn hefði aldrei verið raunverulegur eigandi. Þess í stað hefði verið sett á fót flétta sem að stóðu menn tengdir Ólafi Ólafssyni, starfsmenn Kaupþings og Hauck & Aufhäuser. Þessi flétta hefði verið í þágu Ólafs Ólafssonar sem hefði á endanum fengið 57,5 milljónir dollara í hagnað út úr félaginu Welling & Partners. Starfsmenn Kaupþings settu það upp til að halda utan um raunverulegt eignarhald bréfanna í Búnaðarbankanum sem þýski bankinn var skráður fyrir. Huldufélag fékk 46,5 milljóna dollara hagnað út úr félaginu.