Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Með verri krísum Icelandair

12.03.2020 - 20:59
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. - Mynd: RÚV / RÚV
Staðan sem upp er komin eftir flugbann Bandaríkjaforseta er með stærri krísum sem Icelandair hefur gengið í gegnum. Það sama á við um flugiðnaðinn um allan heim og hagkerfi heimsins. Þetta kom fram í viðtali við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair í Kastljósi í kvöld. Hann sér fram á að það þurfi að taka erfiðar ákvarðanir innan fyrirtækisins. Það geti þó verið án tekna í nokkra mánuði.

„Auðvitað er þetta krefjandi staða sem við erum að fást við, og í rauninni heimurinn allur, flugiðnaðurinn í heiminum. Það sama á við um öll flugfélög í heiminum sem eru skráð á markaði, að hlutabréfin hafa verið í frjálsu falli en það er ekki það sem heldur manni vakandi, hlutabréfaverðið, það er að koma okkar félagi í gegnum þessa krefjandi tíma og ég er sannfærður um að okkur mun takast það. Það þýðir að við þurfum að taka erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir,“ sagði Bogi Nils. Rætt var við hann og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttir í þættinum. Hlutabréf í flugfélaginu, og reyndar í flestum flugfélögum á markaði, hafa fallið síðustu daga.

Hér má horfa á Kastljós kvöldsins. 

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lýsti því yfir í gær að á morgun taki gildi flugbann frá öllum löndum Evrópu, að Bretlandi undanskildu, í 30 daga. Þetta hefur veruleg áhrif á starfsemi Icelandair og sömuleiðis á ferðaþjónustuna í heild sinni hér á landi. Bogi segir að það jákvæða í stöðunni hjá Icelandair sé að þau séu vel undirbúin og með góða lausafjárstöðu. Ýmsar krefjandi aðstæður hafi komið upp undanfarin ár og starfsfólkið reynslumikið á þeim vettvangi. 

Staðan erfið fyrir allan heiminn

Það hefur reynt á rekstur Icelandair að geta ekki nýtt Boeing Max vélar í flota sínum. Aðspurður að því hvort ástandið núna sé með því verra í sögu Icelandair segir Bogi: „Já, ég held að við verðum að segja það, með stærri krísum sem okkar félag og bara flugiðnaðurinn og hagkerfi heimsins hafa lent í. Ég held að það sé engin launung.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Icelandair þolir að vera án tekna í nokkra mánuði en ekkert fyrirtæki þolir slíkt til lengdar, sagði Bogi. „Ef þetta fer langt inn í sumarið og þess háttar þá verður staðan enn alvarlegri, bæði fyrir okkar félag og ferðaþjónustuna í heild sinni, hagkerfið á Íslandi og hagkerfi heimsins. Þetta er ekkert bara okkar vandamál. Þetta er vandamál alls heimsins.“ Starfsfólk Icelandair hefur verið beðið um að minnka starfshlutfall sitt, sé þess kostur og að lengja fæðingarorlof. Þá verða færri sumarstarfsmenn ráðnir í sumar en vanalega.

Ætla að verja miklu í markaðsátak

Stjórnvöld ætla að grípa til ýmissa mótvægisaðgerða vegna höggsins sem útbreiðsla COVID-19 hefur á ferðaþjónustuna. Meðal aðgerða er að ráðast í markaðsátak og kynna Ísland sem áfangastað þegar fólk fer að ferðast á ný. Þórdís Kolbrún segir að í átakið verði varið fjárhæðum sem ekki hafi sést áður í því tilliti, enda sé ferðaþjónustan stór hluti af efnahagslífinu. Þegar fólk fari að ferðast á ný verði hörð samkeppni um ferðamenn. Eitt af því fyrsta sem hafi verið rætt um þegar fyrsta smitið greindist hér á landi hafi verið að ráðast í þetta átak.  

„Sérstaka okkar verður enn meiri þegar þessu yfir lýkur. Hér er hægt að fara yfir land og þú þarft ekki að vera nálægt næsta manni. Við keyrum á okkar sjálfbærni, við erum með okkar skýru sýn.“ Ráðherrann segir ferðaþjónustan, sveitarfélögin og stjórnvöld hafi undirbúið sig og viti hvert sé stefnt. „Við þurfum bara saman að finna út úr því hvernig við komumst í gegnum þetta tímabil. Það verður erfitt og það verður þungt, það verður vont fyrir marga, því miður. En við megum ekki gleyma þvi að við erum saman í því.“