„Auðvitað er þetta krefjandi staða sem við erum að fást við, og í rauninni heimurinn allur, flugiðnaðurinn í heiminum. Það sama á við um öll flugfélög í heiminum sem eru skráð á markaði, að hlutabréfin hafa verið í frjálsu falli en það er ekki það sem heldur manni vakandi, hlutabréfaverðið, það er að koma okkar félagi í gegnum þessa krefjandi tíma og ég er sannfærður um að okkur mun takast það. Það þýðir að við þurfum að taka erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir,“ sagði Bogi Nils. Rætt var við hann og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttir í þættinum. Hlutabréf í flugfélaginu, og reyndar í flestum flugfélögum á markaði, hafa fallið síðustu daga.
Hér má horfa á Kastljós kvöldsins.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lýsti því yfir í gær að á morgun taki gildi flugbann frá öllum löndum Evrópu, að Bretlandi undanskildu, í 30 daga. Þetta hefur veruleg áhrif á starfsemi Icelandair og sömuleiðis á ferðaþjónustuna í heild sinni hér á landi. Bogi segir að það jákvæða í stöðunni hjá Icelandair sé að þau séu vel undirbúin og með góða lausafjárstöðu. Ýmsar krefjandi aðstæður hafi komið upp undanfarin ár og starfsfólkið reynslumikið á þeim vettvangi.
Staðan erfið fyrir allan heiminn
Það hefur reynt á rekstur Icelandair að geta ekki nýtt Boeing Max vélar í flota sínum. Aðspurður að því hvort ástandið núna sé með því verra í sögu Icelandair segir Bogi: „Já, ég held að við verðum að segja það, með stærri krísum sem okkar félag og bara flugiðnaðurinn og hagkerfi heimsins hafa lent í. Ég held að það sé engin launung.“