Með þrjátíuföld mánaðarlaun verkamanna

03.09.2014 - 20:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins eiga að sjá til þess að hófs sé gætt í launum stjórnenda og að þau séu í samræmi við íslenskan veruleika. Engu að síður eru stjórnendur stærstu fyrirtækjanna með allt að þrjátíuföld mánaðarlaun verkamana.

Alþýðusambandið birti í dag úttekt á launakjörum æðstu stjórnenda atvinnulífsins og setur þau í samhengi við kjör verkafólks.
Þar kemur fram að launakjör forstjóra Össurar jafngilda meðallaunum 31 verkamanns.  Laun forstjóra Eimskipa jafngilda meðallaunum 17 verkamanna og laun forstjóra Haga jafngilda launum 15 verkamanna.

Í úttekt ASÍ segir að þessi kjör æðstu stjórnenda varði launafólk að tvennu leyti. Annars vegar sé eðlilegt að horfa til þess að tekjudreifing sé sanngjörn og réttlát og að allir starfsmenn njóti afrakstursins þegar vel gengur. Hins vegar sé launafólk eigendur að stórum hlutum í mörgum stærstu fyrirtækjum landsins í gegnum lífeyrissjóðina.

Sé eignahlutur 3ja stærstu lífeyrissjóðanna í Össuri, Eimskipum og Högum skoðaður kemur í ljós að þessi seinni rök ASÍ eiga fyllilega við rök að styðjast. Eignarhlutur þeirra í þessum þremur fyrirtækjum er samtals á bilinu 17 til 27 prósent.
Í hluthafastefnu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins frá því í desember í fyrra segir skýrum orðum: "LSR telur að við ákvörðun um starfskjör stjórnenda eigi að gæta hófs..."

Sams konar skilaboð má lesa úr fréttatilkynningu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna frá því í febrúar en þar segir: "Haft er að leiðarljósi að hófs verði jafnan gætt varðandi kjör stjórnenda hvers og eins félags þannig að þau verði í góðu samræmi við íslenskan veruleika."
Þriðji risinn í lífeyrissjóðaflórunni, Gildi, segir í stefnu sinni að fulltrúar Gildis í stjórnum hlutafélaga skuli líta til launadreifingar innan fyrirtækja þegar laun forstjóra eru ákvörðuð og launa sem ætla megi að forstjóra bjóðist á þeim markaði sem félagið starfi á.

Fréttastofa sendi fyrirspurnir og skilaboð til forstjóra þessara þriggja lífeyrissjóða í dag til að fá skoðun þeirra á því hvernig gengi að framfylgja þessari stefnu, en án árangurs.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi