Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Með mannskæðustu umferðarslysum

27.12.2018 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Bílslysið sem kostaði þrjú mannslíf á Skeiðarársandi í morgun er með þeim mannskæðustu sem orðið hafa á Íslandi. Þrisvar hafa fleiri farist í umferðarslysum á Íslandi, fjórir í öll skiptin. Umferðarslys þar sem þrír látast hafa nú orðið nítján sinnum.

Síðast fórust þrír í bílslysi í nóvember í fyrra. Það slys var óvenjulegt – þá fór bíll í höfnina á Áskógssandi með þeim afleiðingum að pólskt sambýlisfólk, 36 og 32 ára, lést, ásamt fimm ára dóttur þeirra. Rannsókn leiddi ekki í ljós hvað nákvæmlega olli slysinu en talið var hugsanlegt að ökumaðurinn hefði misst meðvitund undir stýri.

Þar áður fórust þrír á Hafnarfjarðarvegi í desember 2009 þegar ökumaður á leið í suður missti meðvitund, fór yfir grasbala sem skildi að akstursstefnurnar og hafnaði á leigubíl sem ekið var til norðurs. Í leigubílnum var bílstjóri og farþegi. Báðir bílstjórarnir og farþeginn létust.

Í október 2002 lést kona og tvær dætur hennar eftir bílveltu í Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði. Sjö voru í bílnum og fimm þeirra slösuðust. Mæðgurnar voru fluttar til Reykjavíkur á spítala og fjórum dögum síðar voru þær allar látnar.

Í ágúst 2002 létust þrjár eldri konur þegar fólksbíl þeirra var ekið inn á Suðurlandsveg á Landvegamótum í Rangárvallasýslu, í veg fyrir rútu sem kom úr austri. Þrír voru í rútunni og sluppu án meiðsla.

Tveimur mánuðum áður, í júní 2002, varð eitt af þremur mannskæðustu umferðarslysum Íslandssögunnar, þegar jeppi valt út í Blöndulón. Fjórir farþegar í bílnum létust en ökumaðurinn komst út, var fluttur á sjúkrahús og reyndist ekki í lífshættu.

Í nóvember 2000 létust þrjár manneskjur í árekstri á Reykjanesbraut, hjón í öðrum bínum og í hinum ungur maður, en fjögurra ára dóttir hans komst lífs af.

Í ágúst 2000 létust tvítugur karlmaður og sextán ára stúlka í hörðum árekstri fólksbíls og gámaflutningabíls á Suðurlandsvegi á milli Hellu og Hvolsvallar. Önnur sextán ára stúlka lést af sárum sínum á sjúkrahúsi en piltur sem var í fólksbílnum eins og hin látnu slasaðist ekki lífshættulega.

Í febrúar 2000 fórust þrír karlmenn í árekstri rútu og jeppa á Kjalarnesi. Sjö slösuðust alvarlega og björgunaraðgerðir voru einhverjar þær viðamestu sem þá hafði þurft að ráðast í.

Auk slyssins í Blöndulóni í júní 2002 hafa orðið tvö umferðarslys þar sem fjórir farast. Eitt þeirra varð í júlí 1989 í Bergvatnskvísl austur af Hofsjökli þegar jeppa hvolfdi í kvíslinni. Sex manns, tvenn hjón og þrjár dætur þeirra, lögðu upp á tveimur jeppum. Önnur konan lést, sem og fimm ára dóttir hennar og tvær dætur hinna hjónanna, sex og átta ára. Hálfur annar sólarhringur leið frá því að slysið varð og þar til hjálp barst.

Hitt varð í september 1988 þegar fjórir piltar á aldrinum 15 til 18 ára létust í árekstri á Gnúpverjahreppsvegi. Í öðrum bílnum voru þrír og fórust allir. Í hinum bílnum voru tveir og annar fórst en hinn slasaðist alvarlega.