Mannval mikið sér um hljóðfæraleik, Marteinn syngur og spilar á gítar m.a., Daníel Friðrik, Albert og Bergur léku og inn á plötuna en einnig koma þau Magnús Trygvason Eliassen, Shahzad Ismaily, ÓBÓ (Ólafur Björn Ólafsson) Óttar Sæmundsen, Gyða Valtýsdóttir, Jelena Ćirić, Arna Margrét Jónsdóttir, Katrín Helena Jónsdóttir og Örn Ýmir Arason við sögu. Sarah Register hljómjafnaði.
Á jaðrinum
Á mörkum þjóðlaga-, framúrstefnu- og popptónlistar segir í fréttatilkynningu og vel hægt að taka undir það. Platan er aðgengileg og blíð, gælir við eyrun svona mestanpartinn. Grunnurinn er dálítið í nefndri þjóðlagatónlist; en vísar stundum í jaðarbundnari hluta þess; Joanna Newsom, Devandra Banhart. Og þar fáum við framúrstefnuna. Því þó að lögin séu kannski áferðarfalleg er ýmislegt á seyði inni í þeim. Og ekki er allt sem sýnist, eða heyrist. „I live next to ocean“ segir í „Deserts“ en svo beint á eftir. „There are oceans in my mind“. Náttúruhendingar gera vart við sig, það eru fuglar, vötn, fjöll og mánar, vorið kemur seint í einu laginu og í „Odyssey“ er dýfa tekin í áðurnefndan sjó. Textalega séð erum við á ferðalagi, ljóðrænar vangaveltur um heiminn sjálfan eins og titillinn undirstingur. En titillinn er tvíbentur, enda var það Atlas sem þurfti að bera heiminn á herðum sér.
Framvinda
Eins og segir er framvinda plötunnar þekkileg, brjáluð uppbrot eða hávaði er ekki á efnisskránni. Söngrödd Marteins er lágvær og nokkuð til baka, dansar stundum á mörkum söngs og munnlegrar frásagnar. Stundum finnst mér eins og röddin hefði mátt taka meira pláss, en hitt ber á að líta, að mögulega er með þessu verið að leggja áherslu á þá miklu samvinnu sem plötuna einkennir. Flæði laganna er þannig einnig; það er mikið í gangi, alls kyns hljóðfæri koma og fara en frekjast um leið aldrei inn á svæði hvers annars. Þetta er vandlega ofinn hljómavefur, sem styður fallega við söng, texta og byggingu lagasmíðanna.
Atlas er dálítið einstakt verk; dreymið (Beach House, Sóley) en um leið uppfullt af skáldlegum vísunum, eins og Marteinn á kyn til. Afskaplega vel heppnaður frumburður, verður að segjast.