Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Með allar klær úti eftir sýnatökupinnum

25.03.2020 - 23:01
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. - Mynd: RÚV / RÚV
Ekki hefur öll von verið gefin upp um að hægt verði að notast við þá sýnatökupinna sem Össur hefur boðið vegna COVID-19 faraldursins, sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala í Kastljósi kvöldsins. Innkaupadeild spítalans er þó með allar klær úti og ef allar fyrirspurnir deildarinnar myndu skila sér þá myndi berast hálf milljón pinna til landsins. Ólíklegt er þó að það gerist enda eru þeir með eftirsóttari vörum á markaði í dag.

Pinnarnir eru mjög mikilvægir svo að heilbrigðisstarfsfólk geti tekið sýni úr fólki til að kanna hvort það sé sýkt af veirunni. Páll segir að nú séu til 4.000 pinnar í landinu. Aðspurður að því hver lærdómurinn sé af því að hafa ekki átt yfirdrifið nóg af pinnum, segir Páll að fólk hafi ekki áttað sig á því fyrir fram að svo mikil þörf yrði á þeim í faraldrinum.

Hér má horfa á Kastljós í heild sinni

„Þeir hafa reynst vera gríðarlega öflugt tæki í fyrstu vörn hjá okkur, á vegum sóttvarnalæknis, almannavarna og landlæknis, og það er það að rekja smit, nota greiningar og beita síðan sóttkví og einangrun markvisst,“ sagði Páll í Kastljósi. Þessar aðferðir hafi reynst vel og að hafa beri í huga að á milli 60 og 70 prósent þeirra sem hafi greinst með veiruna hafi þegar verið í sóttkví og því ólíklegri til að smita, en ef þeir hefðu til dæmis verið á bar, líkt og gerðist í Ölpunum. Til að taka þessi mörgu sýni hér á landi þá þurfi marga sýnatökupinna.

Stoðtækjafyrirtækið Össur hefur boðið 20.000 sýnatökupinna en í ljós hefur komið að þeir virka ekki alveg eins og hinir sem hafa verið notaðir. „Við erum ekki búin að gefast upp á því að nýta pinnana sem Össur hefur rausnarlega boðið,“ segir Páll. Innkaupadeildin er þó með allar klær úti og segir Páll að ef allar þær pantanir sem gerðar hafi verið myndu skila sér þá myndi koma hálf milljón pinna til landsins.  

En yrði það alvarlegt ef það fást ekki sýnatöku pinnar og myndi yfirsýn yfir útbreiðslu sjúkdómsins glatast? „Ég á ekki von á að við verðum uppiskroppa með pinna,“ segir Páll. Ef það myndi stefna í slíkt þá myndi notkun þeirra verða takmörkuð enn meir og aðrar aðferðir notaðar við greiningu á veirunni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.