Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

MDE sendir misvísandi skilaboð í meiðyrðadómum

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur sent misvísandi skilaboð með dómum sínum í tjáningarfrelsis- og ærumeiðingarmálum að mati Davíðs Þórs Björgvinssonar, fyrrverandi dómara við réttinn og nýskipaðs dómara við Landsrétt. Þetta segir hann í pistli á vefsíðu sinni í tilefni af því að MDE dæmdi íslenska ríkið brotlegt gegn Agli Einarssyni. Hann segir hætt við að niðurstaðan virki letjandi á íslenska dómara, sem vilji reyna að dæma í samræmi við fordæmi MDE, og séu vafalaust ósáttir við dóminn.

MDE komst í gær að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Agli þegar Hæstiréttur sýknaði mann af meiðyrðakröfu Egils. Maðurinn birti mynd af Agli á Instagram ásamt ummælunum „Fuck you Rapist Bastard“. Egill hafði þá verið kærður fyrir nauðgun en málið látið niður falla. Hæstiréttur taldi að í ummælunum fælist gildisdómur frekar en ásökun um refsivert athæfi, og að Egill hefði að nokkru leyti kallað yfir sig hvöss viðbrögð með framgöngu sinni á opinberum vettvangi.

Tvö sératkvæði

Mannréttindadómstóllinn var ósammála og taldi að Hæstiréttur hefði átt að sakfella manninn fyrir meiðyrði. Tveir dómarar við réttinn skiluðu þó sératkvæði. Belgíski dómarinn Paul Lemmens taldi að MDE hefði átt að taka meira tillit til svigrúms Hæstaréttar til að meta hvort ummælin fælu í sér gildisdóm eða staðhæfingu um staðreynd. Niðurstaða Hæstaréttar í þeim efnum hefði verið vel rökstudd og sanngjörn og ekki hefði verið ástæða til að endurskoða hana.

Stéphanie Mourou-Vikström frá Mónakó skilaði einnig sératkvæði og gekk heldur lengra en Lemmens – taldi ekki bara að virða hefði átt svigrúm Hæstaréttar til að meta ummælin sjálfstætt heldur tekur undir þá niðurstöðu Hæstaréttar að með framkomu sinni í opinberri umræðu um kynfrelsi kvenna hafi Egill kallað yfir sig viðbrögð sem þessi.

Gerir landsdómstólum erfitt fyrir

Davíð Þór segir í pistli sínum að sératkvæðin tvö hafi talsvert til síns máls. Hann segir einnig að til undantekninga heyri að MDE hafni miskabótakröfu eins og í máli Egils og telji að viðurkenningin á brotinu sé nægilegar bætur í sjálfri sér.

„Þetta er ekki sérstaklega rökstutt í dóminum, en má túlka svo að MDE fallist á sinn hátt á að Egill, sem væri þekkt persóna, hefði með eigin framgöngu að nokkru kallað þessi viðbrögð yfir sig og ekki rétt að dæma honum miskabætur við þær aðstæður,“ skrifar Davíð.

Hann bætir við að þegar horft sé til allra þeirra dóma sem fallið hafi í tjáningarfrelsis- og ærumeiðingarmálum gegn Íslandi síðustu árin megi halda því fram að skilaboð MDE séu nokkuð misvísandi „og til þess fallin að gera landsdómstólum fremur erfitt fyrir um að fullnægja þeim kröfum sem telja má að í dómaframkvæmd MDE felist, þrátt fyrir vilja til þess“.

Kallar niðurstöðuna bakslag

Davíð segir að erfitt geti verið að átta sig á hvenær á hvaða grundvelli MDE uni mati landsdómstóla og hvenær ekki. „Með sanngirni má segja að dómur Hæstaréttar hafi falið í sér raunverulega og rökstudda tilraun til að taka mið af þeim sjónarmiðum sem MDE hefur þróað, einkum í málum sem varða tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. En allt kom það fyrir ekki að þessu sinni,“ skrifar Davíð Þór.

Þrátt fyrir þetta „bakslag“, eins og Davíð orðar það, verði að hvetja íslenska dómstóla til að halda áfram að reyna að taka mið af dómaframkvæmd MDE.

„Hætt er þó við að þessi dómur MDE, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni, virki letjandi á íslenska dómara í þeim efnum. Þeir eru vafalaust margir ósáttir við þennan dóm enda hafi Hæstiréttur í góðri trú beitt í dómi sínum þeim sjónarmiðum sem MDE hefur mótað í sinni framkvæmd um jafnvægið milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs.“

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV