Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mbeki gagnrýnir stefnubreytingu ANC

25.09.2018 - 21:02
epa04393992 Former South African President and head of African Union High-Level Implementation Panel (AUHIP) Thabo Mbeki (C) speaks at a press conference following his meeting with Sudanese President Omar al-Bashir (not pictured), Khartoum, Sudan,
 Mynd: EPA
Thabo Mbeki, fyrrverandi forseti Suður Afríku, gagnrýnir stjórnarflokk landsins ANC fyrir að vera á góðri leið með að verða svartur flokkur og þar með hverfa frá fyrri gildum þar sem áhersla á alla kynþætti landsins voru í hávegum höfð. Þetta kemur fram á minnisblaði sem ætlað var sem innanflokksgagn en var lekið til fjölmiðla, að því er AFP greinir frá.

BBC segir að minnisblaðið komi frá Stofnun Mbekis, en að talið sé líklegt að hann hafi skrifað það sjálfur.

Cyril Ramaphosa, sem nú er forseti landsins, hefur talað fyrir stjórnarskrárbreytingum sem hefðu í för með sér að ríkið gæti svipt hvítt fólk landareignum og úthluta landinu til svartra. Þannig eigi að takast á við mikla misskiptingu 24 árum eftir að aðskilnaðarstefnunni var aflétt í landinu. Mbeki segir í minnisblaðinu að ANC, sem leiddi baráttuna gegn stjórn hvíta minnihlutans í Suður Afríku, hafi hingað til staðið fyrir frelsi alls mannkyns, svartra og hvítra. Málflutningur núverandi forystu flokksins bendi til þess að flokkurinn hafi breytt um afstöðu. Flokkurinn sé ekki lengur fulltrúi suður-afrísku þjóðarinnar allrar heldur eingöngu svartra. Í minnisblaðinu heldur Mbeki því fram að Jakob Zuma, sem var þvingaður til að segja af sér embætti forseta Suður Afríku fyrr á árinu, hafi talað á sömu nótum um flokkinn í fyrra. 

Landnýting er orðið að heitasta kosningamálinu en  næst verður kosið til þings á næsta ári. ANC hefur verið við völd í landinu frá því aðskilnaðarstefnunni var aflétt árið 1995.

Mbeki tók við embætti forseta Suður Afríku af Nelson Mandela sem var forseti á árunum 1999 til 2008. Stefna stjórnvalda um landnýtingu hefur haft áhrif á erlenda fjárfesta en Ramaphosa hefur heitið því að umbætur í þessum efnum verði gerðar í samræmi við lög og að þær muni ekki ógna stöðugleika.

BBC greinir frá því að hvítir menn, sem eru um níu prósent þjóðarinnar, eigi um 72 prósent af bújörðum landsins sem eru í einkaeigu. 
Þar til nýlega hafi opinbera stefnan verið sú að endurúthluta landi sem gengi kaupum og sölum. Nú vilji ANC rétta sögulegt óréttlæti sem svartir þegnar landsins hafi þurft að búa við með því að taka land eignarnámi án þess að greiða bætur fyrir.  
 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV