Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Matvæli og vatn til rannsóknar vegna e. coli

04.07.2019 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Tvö börn liggja alvarlega veik á barnaspítala Hringsins með nýrnabilun vegna sýkingar af e. coli bakteríu. Orsök smitsins er ófundin en bæði matvæli og drykkjarvatn eru til rannsóknar. Alls hafa fjögur börn veikst, á aldrinum fimm mánaða til sjö ára. Þau voru öll á sömu stöðunum í uppsveitum Árnessýslu.

Fjögur börn hafa veikst eftir að hafa smitast af e. coli bakteríu. Tvö þeirra, þriggja ára og sjö ára, liggja á sjúkrahúsi.

„Þetta eru börn á aldrinum fimm mánaða til sjö ára. Og yfirleitt kemur þessi sjúkdómur mest fram hjá börnum en getur líka sést hjá fullorðnum,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá embætti landlækis.

Hvernig heilsast þessum börnum?

„Eftir því sem ég veit best þá heilsast þeim alveg þokkalega. Tvö voru innlögð og hafa verið innlögð á Barnaspítala Hringsins en tvö þurftu ekki innlögn en það er fylgst með þeim af barnalæknum,“ segir Þórólfur.

En eru þau alvarlega veik sem liggja inni?

„Já, yfirleitt eru börn veik ef þau þurfa á innlögn að halda og þegar þessi sjúkdómur kemur upp sem lýsir sér sem nýrnabilun og blóðleysi þá getur ástandið orðið alvarlegt,“ segir Þórólfur. 

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Matvælastofnun auk Landlæknisembættisins reyna nú að grafast fyrir um það hvernig börnin smituðust.

„Við bindum þessa sýkingu við uppsveitir Árnessýslu og Bláskógabyggð. Einstaklingar sem hafa verið þar á síðastliðnum 2-3 vikum og fá niðurgang, og ég tala ekki um blóðugan niðurgang, þeir ættu að leita til læknis. Það er það sem við erum að einblína og reyna að finna út hvort þau hafi borðað á sömu stöðum og svo framvegis, hvar þau hafa verið. Þannig að við gætum þurft að rannsaka þá staði betur,“ segir Þórólfur.

Fram kemur á vef landlæknisembættisins að oftast megi rekja e. coli sýkingu til nautgripa og afurða þeirra. Helsta smitleiðin í menn sé með menguðum matvælum og vatni en einnig geti smit borist mann frá manni. 

„Þau voru ekki saman börnin sjálf og hafa ekki umgengist hvort annað nema tvö af þessum börnum eru systkini en annað eiga þau ekki sameiginlegt. En þau hafa verið á sömu stöðunum,“ segir Þórólfur.

Er búið að útiloka að þetta geti verið í drykkjarvatni?

„Það er einn af þessum þáttum sem er verið að skoða mjög vel,“ segir Þórólfur.

Telurðu líklegt að það komi fram fleiri smit?

„Ómögulegt að segja. Þegar tvö tilfelli voru komin fram taldi ég ólíklegt að það kæmu fleiri en svo komu tvö í viðbót. Þannig að maður veit aldrei,“ segir Þórólfur.

Þórólfur hvetur fólk til hreinlætis og að þvo sér vel um hendurnar.