Máttu skoða tölvupóst starfsmanns

04.10.2019 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: Luis Villasmil - Unsplash
Upplýsingatæknifyrirtæki var heimilt að skoða tölvupósthólf fyrrum starfsmanns, tveimur mánuðum eftir starfslok, samkvæmt úrskurði Persónuverndar. Fyrirtækið gerði þó ekki fullnægjandi ráðstafanir þegar starfsmaðurinn lét af störfum, varðandi það að gefa honum kost á að eyða eða taka afrit af tölvupósti sem ekki tengist starfsemi fyrirtækisins.

Starfsmaðurinn kvartaði til Persónuverndar þar sem vinnuveitandinn hafði skoðað vinnupósthólfið hans tveimur mánuðum eftir starfslok án þess að hann hafi verið viðstaddur, og afritað sex tölvupósta sem síðar voru lagðir fram með lögbannsbeiðni á þá háttsemi fyrrum starfsmannsins að brjóta gegn samkeppnisbanni ráðningarsamnings.

Í niðurstöðum Persónuverndar er litið til viðskiptahagsmuna sem í húfi voru, bæði fyrir fyrirtækið, viðskiptavini þess og þess að tölvupóstarnir báru ekki með sér að vera einkatölvupóstar. Þá féllst Persónuvernd á að skapast hefði virk hætta á því að starfsmaðurinn gæti grafið undan viðskiptahagsmunum félagsins og skaðað hagsmuni þess og viðskiptavina þess ef honum hefði verið boðið að vera viðstaddur þegar tölvupósturinn var skoðaður.

Samkvæmt lögum á við starfslok að gefa starfsmanni kost á að eyða eða taka afrit af þeim tölvupósti sem ekki tengist starfsemi vinnuveitandans. Einnig á að leiðbeinastarfsmanni um að virkja sjálfvirka svörun úr pósthólfi sínu um að hann hafi látið af störfum. Persónuvernd telur að fyrirtækið hafi ekki farið eftir þessum reglum í málinu.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi