Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Máttu fara fram á að brauðið yrði smitvarið

Selfoss Verslun miðstöð verlunarmiðstöð Bónus Hagkaup
Mynd úr safni Mynd: Jónsson Jónsson - Jóhannes Jóhannes
Sveitarfélagið Árborg og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands voru sýknuð af kröfum Krónunnar ehf. vegna athugasemda á því hvernig brauði væri stillt fram í verslun Krónunnar á Selfossi. Landsréttur dæmdi í málinu í dag.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands ákvað 6. desember 2016, fyrir réttum þremur árum, að brauðmeti í versluninni yrði varið með með umbúðum eða öðrum hætti sem tryggði matvöruna gegn mengun. Heilbrigðiseftirlitið koma þrívegis í heimsókn haustið 2016 og fór fram á að þetta yrði gert. Því var meðal annars hótað í bréfi til Krónunnar að ef ekki yrði bætt úr yrðu vörurnar teknar úr sölu.

Að lokum lét Krónan til segjast og breytti innréttingu í versluninni.

Smithætta í versluninni

Heilbrigðiseftirlitið studdu kröfu sína um að brauðið yrði varið fyrir megnun með því að væri það óvarið væri hætta á að smit gæti borist í brauðið vegna snertingar, hnerra eða hósta viðskiptavina. Það sé alþekkt að smit geti borist í matvæli vegna snertingar, hnerra eða hósta og því nauðsynlegt að verja ferska vöru.

Krónan kærði stjórnvaldsákvörðun heilbrigðiseftirlitsins og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi og að versluninni yrðu greiddar 353.797 krónur ásamt dráttarvöxtum. Krónan taldi ákvörðunina ekki eiga sér lagastoð og að ekki hafi málefnaleg sjónarmið legið að baki. Fullnægjandi rannsókn hafi ekki verið gerð. Krónan sagði heilbrigðiseftirlitið þurfa að sanna að brauð hafi í raun mengast og leggja fram vísindaleg gögn um smithættu.

Hlutverk heilbrigðiseftirlitsins

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi haft heimild til þess að beita stjórnvaldsákvörðuninni, enda sé það hlutverk þess að koma í veg fyrir smithættu í matvælum og gera áhættumat til þess að ná markmiðum laga um matvæli.

Landsréttur staðfesti þess vegna dóm Héraðsdóms Suðurlands um sýknu og Krónunni er gert að greiða Árborg og heilbrigðiseftirlitinu málskostnað, 700.000 krónur hvorum um sig.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV