Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mátti greina Facebook-hópi frá nauðgunum

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - rúv
Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir konu sem greindi í lokuðum spjallhópi á Facebook frá kynferðisofbeldi stjúpbróður síns og annarra drengja á árunum 1986 til 1992. Stjúpbróðurinn krafist þess að ummæli hennar yrðu dæmd ómerk og að hún greiddi honum eina milljón króna, auk málskostnaðar.

Karlinn er fæddur árið 1974 en konan árið 1976. Hæstiréttur dæmdi hann í dag til að greiða konunni eina milljón króna í málskostnað. Konan lét ummælin falla í lokuðum spjallhópi árgangs síns úr grunnskóla á Facebook þegar verið var að undirbúa samkomu í tilefni af fermingarafmæli. Hún var ítrekað innt eftir því hvort hún hygðist mæta á samkomuna. Hún vildi ekki mæta þar sem hún átti slæmar minningar úr skólanum sem hún hafi þurft að vinna sig út úr, meðal annars um kynferðisofbeldi af hálfu stjúpbróðus og annarra drengja. Í færslunni sagði hún meðal annars að það hafi ekki verið draumur hennar að vera læst inni í herbergi á meðan drengir skiptust á að „uppfylla óskir sínar“. Hún greindi einnig frá því að margir hafi fengið leyfi frá stjúpbróður hennar til að gera það sem þeir vildu. „Það var nú fínt þar sem að hann gerði sama hlutinn. Það fékk enginn leyfi frá mér.“ Það eru þessi tvenn ummæli sem stjúpbróðirinn vildi að yrðu dæmd ómerkt. 

Í skýrslutöku við aðalmeðferð málsins sagði konan frá því að fljótlega eftir að þau kynntust, þá 9 og 11 ára gömul hafi hann byrjað að snerta hana, fyrst með kitli. Eftir nokkra mánuði hafði hann fyrst samfarir við hana. Fljótlega eftir það hafi hann látið hana hafa við sig munnmök, notað á sig hjálpartæki og verið farinn að nota klámefni. Á sama tími hafi hann verið mjög grófur við sig líkamlega. Þá hafi hann einnig verið mjög kúgandi andlega og haft unun af að niðurlægja hana. Um tíma hafi hann misst áhuga á kynlífi með henni en þá fengið ánægju út úr því að veita öðrum aðgang að henni. Síðar hafi hann tekið upp fyrri iðju sjálfur. 

Stjúpbróðirinn sagði fyrir rétti að kynferðisleg samskipti þeirra hafi alltaf verið með samþykki hennar. Í dómi Hæstaréttar segir að um þann hluta ummælanna sem sneri að kynferðislegri misnotkun annarra drengja, með leyfi hans, yrði þess ekki krafist að hún færði sönnur á sannleiksgildi ummælanna í sama mæli og í sakamáli. Þegar gögn málsins væru skoðuð í heild sinni yrði að líta svo á að konan nyti frelsis til að tjá sig málefnalega um mikilvæg samfélagsmál, samkvæmt stjórnarskrá, og að hún hefði leitt nægar líkur að góðri trú sinni um réttmæli ummælanna þannig að þau yrðu ekki ómerkt.

Fyrrum ráðgjafi hjá Stígamótum og félagsráðgjafi voru meðal vitna í héraðsdómi. Konan lagði fram kæru vegna kynferðisbrotanna í ágúst 2015. Hún fékk þau svör að gerandinn hafi verið ósakhæfur vegna aldurs þegar hluti brotanna átti sér stað. Hin voru fyrnd.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir