Matarafgangar tilvaldir í fuglafóður í vetur

01.11.2016 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: Örn Óskarsson
Garðfuglakönnun Fuglaverndar er farin af stað og stendur yfir í allan vetur, eða allt til 29.apríl á næsta ári. Markmiðið er að kanna hvaða fuglar sækja í garða, fjölda þeirra og breytingar í tegundasamsetningu yfir vetrarmánuðina.

Á vef Fuglaverndar kemur fram að bæði einstaklingar og vinnustaðir geti tekið þátt í fuglatalningunni og að hægt sé að byrja hvenær sem er. 

Mynd með færslu
 Mynd: Örn Óskarsson

Í tilkynningu frá Fuglavernd eru vinnustaðir hvattir til að nýta matarafganga í fóður handa smáfuglunum í vetur. Það geti verið fróðlegt að fylgjast með smáfuglunum auk þess sem með nýtingu á matarafgöngum í fóður sé dregið úr matarsóun. Tilvalið sé að nýta brauðenda, eplakjarna, perukjarna, fitu og kjötafganga auk þess sem kaupa megi fóður fyrir fugla víða. 

Þá vonast Fuglavernd til þess að fóðrun fugla við vinnustaði leiði til þess að fleiri fari að gefa fuglum gaum og fái áhuga á vernd fugla og búsvæða þeirra. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi