Mat leikhússins að eitthvað yrði að gera

26.09.2019 - 14:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður Kristínar Eysteinsdóttur, borgarleikhússtjóra og Borgarleikhússins, sagði að öll samningsbundin réttindi Atla Rafns Sigurðarsonar hefðu verið virt þegar honum var sagt upp störfum vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Það hefði verið mat leikhússins sjálfs að ekki hefði verið unnt að hafa Atla áfram í starfi.

Aðalmeðferð í máli Atla Rafns gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur lauk skömmu eftir hádegi í dag. Atli Rafn stefndi Borgarleikhúsinu og telur uppsögn sína hafa verið ólögmæta. Hann krefst 13 milljóna króna í bætur.

Í morgun fóru fram skýrslutökur í málinu..  Bæði Atli Rafn og Kristín komu fyrir dóminn en líka Eggert Benedikt Guðmundsson, stjórnarformaður Leikfélags Reykjavíkur sem og trúnaðarmaður tæknimanna hjá Borgarleikhúsinu. Hann staðfesti að honum hefði borist tvær kvartanir um kynferðislega áreitni af hálfu Atla Rafns. „Mér var sagt frá þessum tilvikum og þegar ég spurði hvort ég ætti að fara með þessar kvartanir lengra var svarið já.“

Skrifstofustjóri á sálfræðistofunni Líf og Sál gaf einnig skýrslu fyrir dómi og staðfesti að nokkrir starfsmenn Borgarleikhússins hefðu nýtt sér munnlegt samkomulag við leikhúsið um að nýta sér þjónustu stofunnar vegna máls Atla. 

Sigurður Örn, lögmaður Borgarleikhússins, rifjaði upp að þegar Atla Rafni hefði verið sagt upp hefði #metoo-byltingin farið um allan heim og borist til Íslands.   Leikhússtjóri hefði sagt sínum starfsmönnum að dyrnar hennar stæðu þeim opnar sem vildu ræða um kynferðislega áreitni.

Leikhússtjóra hefði síðan borist ábendingar um áreitni Atla og hún hefði verið með starfsmannaviðtal í undirbúningi þegar tilkynningum um slíka hegðun leikarans fór að fjölga.  Sigurður Örn tók skýrt fram að þetta hefðu ekki verið nafnlausar ásakanir heldur hefði borgarleikhússtjóri átt í beinum samskiptum við viðkomandi. „Öll þessi upplýsingagjöf var í trúnaði og það er ekkert óeðlilegt.“

Sigurður Örn sagði þrjá starfsmenn Borgarleikhússins hafa lýst andlegri vanlíðan og eðli þessara kvartana hefði verið þannig að eitthvað hefði þurft að gera. Það hefði því verið mat leikhússins sjálfs að ekki hefði verið hægt að halda Atla áfram í starfi. „Leikhúsið er ekki hefðbundinn vinnustaður, leikarar og starfsfólk vinna náið saman á öllum tíma sólarhringsins.“

Í ljósi þessa hefði Atla hefði verið tilkynnt að fram hefðu komið þessar ásakanir, hvert eðli þeirra væri en hann hefði ekki fengið nein nöfn né nánari lýsingu á málsatvikum þar sem kvartanirnar hefðu verið bornar fram í trúnaði. 

Dóms er að vænta í málinu eftir mánuð.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi